Innlent

Uggur í Íslendingum sem hópuðust í banka að kaupa gjaldeyri

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Annir voru í gjaldeyrissölu í Ariobanka í Borgartúni í gær.
Annir voru í gjaldeyrissölu í Ariobanka í Borgartúni í gær. vísir/anton

Talsvert var um að fólk gerði sér ferð í banka í gær til að kaupa gjaldeyri.

„Það er nokkuð meira að gera en á venjulegum degi og eitthvað af því tengist gjaldeyrisviðskiptum,“ sagði Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka, er rætt var við hann um klukkan eitt í gær. „Þetta er misjafnt eftir útibúum, sumir verða lítið varir við þetta en aðrir meira.“

Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion.

Blaðamenn Fréttablaðsins sem komu við í tveimur útibúum Arion banka í Reykjavík í gær urðu varir við að fólk vildi hafa vaðið fyrir neðan sig áður en gjaldeyrishöft í landinu verða að fullu afnumin í dag.

Í útibúi Arion banka í Húsgagnahöllinni voru hátt í tuttugu viðskiptavinir skömmu eftir klukkan eitt. Örfáir voru að bíða eftir þjónustufulltrúa en aðrir vildu ná tali af gjaldkera. „Er einhver sem bíður gjaldkera sem ætlar ekki að kaupa gjaldeyri?“ kallaði starfsmaður sem vildi sinna slíkum viðskiptavinum. Enginn gaf sig fram.

Starfsmenn Arion banka í Borgartúni sögðu laust eftir hádegi að talsverður erill hefði verið í bankanum þann dag. Mjög margir vildu kaupa gjaldeyri. Kona sem var í bankanum sagði blasa við að fólk vildi kaupa gjaldeyri vegna óvissunnar sem myndi skapast með afnámi haftanna.

Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi Landsbankans, tók í svipaðan streng og Haraldur Guðni hjá Arion banka. Hann segir fólk hafa bæði verið að kaupa gjaldeyri vegna utanlandsferða og til að stofna gjaldeyrisreikninga.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira