Enski boltinn

Mourinho vildi ekki tala um rauða spjaldið eftir leikinn eða svona næstum því

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester United er úr leik í enska bikarnum eftir tap á móti Chelsea á Stamford Bridge í kvöld en liðið lék manni færri í 55 mínútur í 1-0 tapi á móti toppliði ensku úrvalsdeildarinnar.

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, hló af ákvörðun Michael Oliver þegar hann rak Ander Herrera af velli á 35. mínútu fyrir sitt annað gula spjald.

Portúgalinn vildi ekki tala um rauða spjaldið eftir leikinn en sagði samt ýmislegt eins og hans er von og vísa.

„Ég ætla ekki að tala um rauða spjaldið. Ég vil bara segja að ég er virkilega stoltur af leikmönnum og stuðningsmönnum Manchester United í kvöld,“ sagði Jose Mourinho við BBC eftir leikinn.

„Það er mikilvægur leikur framundan á fimmtudaginn og nú vil ég fá að hvíla mig aðeins og undirbúa mig síðan eins vel og ég get,“ sagði Mourinho og vísaði þar í Evrópudeildarleik í vikunni.

„Það geta allir leikgreint þennan leik í bak og fyrir en hann mun alltaf skiptast í leikinn fyrir og eftir rauða spjaldið. Við getum því borið þessi gulu spjöld saman við þau brot í leiknum sem kölluðu ekki á gul spjöld,“ sagði Mourinho.

„Michael Oliver er dómari sem hefur frábæra möguleika til að ná langt í framtíðinni en í fjórum leikjum hjá okkur hefur hann dæmt á okkur þrjár vítaspyrnur og gefið rautt spjald. Ég get ekki breytt því,“ sagði Mourinho en hvað sagði hann við Antonio Conte eftir leikinn.

„Ég tók í höndina á honum og óskaði honum til hamingju,“ sagði Jose Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×