Erlent

Þingið gefur grænt ljós á Brexit

Samúel Karl Ólason skrifar
Þingmennirnir höfnuðu þó breytingu á frumvarpinu sem hefði tryggt réttindi borgara ESB í Bretlandi.
Þingmennirnir höfnuðu þó breytingu á frumvarpinu sem hefði tryggt réttindi borgara ESB í Bretlandi. Vísir/EPA
Breska þingið hefur samþykkt að veita Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, heimild til að virka 50. grein Lissabonsáttmálans og hefja úrsagnarferli Bretlands úr Evrópusambandinu. Frumvarp þar að lútandi fór í gegnum báðar deildir þingsins nú í kvöld. May hefur sagt að hún muni virkja 50. greinina í lok mánaðarins.

Þingmennirnir höfnuðu þó breytingu á frumvarpinu sem hefði tryggt réttindi borgara ESB í Bretlandi. Talið er að drottningin muni skrifa undir lögin í fyrramálið.

Heimastjórn Skotlands hyggst ætla að boða til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði frá Bretlandi vegna Brexit, en meirihluti Skota kaus að vera áfram í ESB. Sjálfstætt Skotland þyrfti þó að sækja aftur um aðild að Evrópusambandinu og einnig að Atlantshafsbandalaginu.

Skotar greiddu atkvæði um sjálfstæði árið 2014 en 55,3 prósent kjósenda höfnuðu því. Stefnt er að því að halda aðra atkvæðagreiðslu árið 2019.

Eftir að 50. greinin hefur verið virkjuð hefur ríkisstjórn May tvö ár til að endursemja við ESB um viðskipti, flæði fjármagns og fólks og margt fleira.

Í tilkynningu frá ríkisstjórninni segir að nú hefjist mikilvægust viðræður Bretlands um langt skeið. Stjórnin sé með áætlun um byggingu „alþjóðlegs Bretlands“ og að nýta þau tækifæri sem felast í nýrri stöðu ríkisins.

„Við munum virkja 50. greinina í lok mánaðarins eins og var áætlað og skila niðurstöðu með hagsmuni alls Bretlands að leiðarljósi,“ segir David Davis, Brexit-ráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×