Viðskipti innlent

Lindex opnar í Reykjanesbæ

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Frá opnun Lindex í Smáralind.
Frá opnun Lindex í Smáralind. vísir

Verslunin Lindex verður opnuð í Krossmóa í Reykjanesbæ þann 12. ágúst næstkomandi. Samningur þess efnis hefur verið undirritaður af Urtusteini fasteignafélagi og forráðamönnum Lindex.

Um verður að ræða 330 fermetra verslun sem verður staðsett í aðalgangi verslunarmiðstöðvarinnar.Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að nýja verslunin verði byggð upp með nýrri innréttingahönnun Lindex en hún byggir á björtu yfirbragði, ólíkum litbrigðum hvítra og svartra auk viðar.

Lindex rekur nú fjórar verslanir á Íslandi; í Smáralind, Kringlunni og Glerártorgi á Akureyri.

 „Þetta er frábært næsta skref fyrir okkur en við opnuðum Lindex í Smáralind árið 2011, í Kringlunni árið 2013 og á Glerártorgi 2014.  Við teljum það vera einstaklega jákvætt að geta nú komið á Suðurnesin þar sem er mikill uppgangur og öflugt samfélag.  Við erum þakklát fyrir hversu vel hefur tekist til með staðsetningu og hlökkum mikið til að bjóða okkar viðskiptavinum á Suðurnesjum upp á tískuupplifun á heimsmælikvarða“ segir Lóa D. Kristjánsdóttir, umboðsaðili Lindex á Íslandi í tilkynningunni.

Verslunarmiðstöðin Krossmói var byggð árið 2008 og fjölþætt þjónusta er í húsinu sem hýsir m.a. verslun Nettó, Lyfju apótek og ÁTVR á Suðurnesjum. 
Fleiri fréttir

Sjá meira