Körfubolti

Benedikt: Vitum vel að verkefnið verður ekki stærra en þetta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, bætir sitt eigið met í kvöld.
Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, bætir sitt eigið met í kvöld. Vísir/Eyþór
Úrslitakeppnin í Domino’s-deild karla, vorboðinn ljúfi, hefst í kvöld. Þá taka deildarmeistarar KR á móti liðinu sem hafnaði í áttunda sæti deildarinnar, Þór frá Akureyri.

Eins og eðlilegt er reikna flestir hlutlausir með sigri KR í rimmunni, enda Íslandsmeistarar síðustu þriggja ára og nýkrýndir bikarmeistarar. Þórsarar eru nýliðar í deildinni en hafa samt þaulreyndan þjálfara, Benedikt Guðmundsson, og búa að því að hafa skellt KR-ingum á heimavelli í febrúar með átján stiga mun.

Benedikt þekkir úrslitakeppnina betur en flestir aðrir en hann er fyrsti þjálfarinn í sögu hennar sem afrekar að stýra fimm mismunandi liðum í henni. Benedikt, sem er raunar uppalinn KR-ingur, hefur átt metið einn síðan árið 2012 og með öðrum síðan 2005. Hann hefur áður stýrt liðum KR, Grindavíkur, Fjölnis og Þórs úr Þorlákshöfn í úrslitakeppninni.

Einföld formúla

Aðspurður segir hann að formúlan fyrir því að vinna KR-inga þrisvar í rimmunni, sem er það sem þarf til, sé einföld. „Við vinnum þá tvisvar á heimavelli og stelum svo einum á útivelli,“ sagði hann í samtali við íþróttadeild.

„Við vitum vel að verkefnið verður ekki stærra en þetta. Við þurfum að eiga algjöra toppleiki til að vinna. Strákarnir hafa sýnt að við getum spilað það að vel að við getum unnið hvaða lið sem er í deildinni.“

KR-ingar hafa, þrátt fyrir að hafa verið verið í toppbaráttu í allan vetur og orðið að lokum deildarmeistarar, lent í basli með mörg lið og þótt jafnvel spila undir getu. Benedikt ítrekar þó að hæfileikarnir í liði KR séu öllum augljósir.

Allir þekkja styrk KR

„Hvort þeir hafa verið að bíða eftir úrslitakeppninni skal ég ekki segja. En það vita allir að þeir eiga meira inni. Hugsanlega er það að koma hjá þeim núna,“ sagði Benedikt sem bendir á að KR hafi á löngum köflum í vetur verið án lykilmanna.

„Þrátt fyrir það og að liðið hafi verið að spila af 60-70 prósenta getu þá er KR samt með besta liðið. Það eru ekki góðar fréttir fyrir hin liðin. En við ætlum samt að taka þá.“

Leikur KR og Þórs Akureyri hefst klukkan 19.15 í kvöld og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3. Hinar þrjár rimmurnar í 8-liða úrslitunum hefjast á morgun.

Hægt er að kaupa miða á netinu á leik kvöldsins hér.

Benedikt Guðmundsson gerði KR að Íslandsmeisturum 2007 og 2009.Vísir/Vilhelm
Benedikt bætir sitt eigið met í kvöld

Benedikt Guðmundsson verður í kvöld fyrsti þjálfarinn sem nær að stýra fimm félögum í úrslitakeppni karla í körfubolta. Benedikt hefur átt metið einn síðan árið 2012 og með öðrum síðan 2005.

Benedikt mætir þá með lærisveina sína í Þór Akureyri í leik á móti Íslandsmeisturum KR en Benedikt hefur áður stýrt liðum KR, Grindavíkur, Fjölnis og Þórs úr Þorlákhöfn í úrslitakeppninni.

Fyrstur til að stýra tveimur liðum í úrslitakeppni

Gunnar Þorvarðarson, Keflavík 1987 (Njarðvík)

Fyrstur til að stýra þremur liðum í úrslitakeppni

Gunnar Þorvarðarson, Grindavík 1991 (Njarðvík, Keflavík)

Fyrstur til að stýra fjórum liðum í úrslitakeppni

Benedikt Guðmundsson, Þór Þorl. 2012 (KR, Grindavík, Fjölnir)

Fyrstur til að stýra fimm liðum í úrslitakeppni

Benedikt Guðmundsson, Þór Ak. 2017 (KR, Grindavík, Fjölnir, Þór Þorl.)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×