Viðskipti innlent

Telja Ísland geta borið 42% fleiri Domino's pitsustaði

Haraldur Guðmundsson skrifar
Pizza-Pizza á og rekur 21 Domino's-stað hér á landi.
Pizza-Pizza á og rekur 21 Domino's-stað hér á landi. Vísir/Eyþór

Stjórnendur Domino’s í Bretlandi (Domino’s Pizza Group, DPG), sem mun að öllum líkindum eignast ráðandi hlut í Domino’s á Íslandi á næstunni, telja að fjölga megi pitsustöðum keðjunnar hér um 42 prósent eða níu staði. Salan hér jókst um 16 prósent í fyrra og til stendur að opna tvo staði á þessu ári.

Þetta kemur fram í fjárfestakynningu DPG á bráðabirgðatölum vegna reksturs bresku pitsukeðjunnar í fyrra. Samkvæmt henni telur félagið að hér megi reka 30 staði. Breska fyrirtækið, sem er skráð í kauphöllinni í London, keypti sig inn í rekstur Domino’s á Íslandi, í Noregi og Svíþjóð í júní í fyrra. Kaupverðið var 24 milljónir punda, eða rúmir fjórir milljarðar króna miðað við þáverandi gengi, og keypti DPG hlut í Pizza-Pizza ehf.  

Í fréttatilkynningu DPG á fimmtudag kom fram að breska félagið ætlar að bæta við sig tveggja prósenta hlut í Pizza-Pizza og þannig eiga meirihluta eða 51 prósent. DPG keypti 45 prósenta hlut í rekstrinum í Noregi og Svíþjóð í júní í fyrra og ætlar sér nú einnig 51 prósent í þeim hluta. Viðskiptin eru háð samþykki Seðlabanka Íslands.

Samkvæmt áætlunum DPG og Pizza-Pizza er gert ráð fyrir að fjórir til sex staðir verði opnaðir í Noregi á þessu ári. Markaðurinn þar beri allt að 75 staði en þeir eru nú einungis tólf. Tæp þrjú ár eru liðin síðan Pizza-Pizza opnaði fyrsta staðinn þar og jókst salan um 131 prósent í fyrra. Félagið opnaði í Svíþjóð í desember í fyrra og sinn annað pitsustað þar í janúar. DPG telur eftirspurn eftir pitsum keðjunnar í Svíþjóð geta borið 125 staði.

Birgir Þór Bieltved, fjárfestir og starfandi stjórnarformaður Pizza-Pizza, Eygló Björk Kjartansdóttir, eiginkona hans og stjórnarmaður í félaginu, og aðrir fjárfestar, þar á meðal framtakssjóðurinn EDDA, í eigu lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta, seldu DPG hluta af sinni eign í félaginu.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 
Fleiri fréttir

Sjá meira