Handbolti

Viggó fékk rauða spjaldið í Íslendingaslag í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Kristjánsson þjálfar lið AaB Håndbold.
Aron Kristjánsson þjálfar lið AaB Håndbold. vísir/getty

Aron Kristjánsson og lærisveinar hans í AaB Håndbold styrktu stöðu sína á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta í kvöld.

AaB Håndbold vann þá níu marka útisigur á botnliði Randers HK, 26-27, en Íslendingar eru áberandi hjá báðum liðunum.

Janus Daði Smárason var áberandi í fyrri hálfleiknum þar sem hann var með tvö mörk og þrjár stoðsendingar. Arnór Atlason skoraði líka eitt mark í fyrri hálfleiknum en Álaborgarliði var með fimm marka forystu í hálfleik, 12-7. Janus Daði bæði við einu marki í seinni hálfleik og endaði með þrjú mörk en þetta var eina mark Arnórs.

Randers HK hefur aðeins unnið 4 af 23 leikjum sínum en þeir hafa verið skeinuhættir á heimavelli eins og þeir sýndu með sigrum á liðum eins og SønderjyskE, Skjern og Århus Håndbold.

Viggó Kristjánsson hefur verið aðalmarkaskorari Randers HK liðsins á tímabilinu en hann fann sig ekki nógu vel í dag og skoraði „bara“ tvö mörk úr sex skotum í kvöld. Viggó var greinilega orðinn pirraður því hann fékk beint rautt spjald sex mínútum fyrir leikslok.

Randers var fjórum mörkum undir þegar Viggó var rekinn í sturtu, 21-17, en tapaði lokakaflanum 5-0 og þar með leiknum með níu mörkum.

Arnór Freyr Stefánsson kom inn í markið hjá Randers HK í lokin, varði tvö skot í byrjun og endaði með 36 prósent markvörslu (4 skot varin af 11).

AaB Håndbold er komið með 38 stig eftir þennan sigur og þar með sjö stiga forskot á Tvis Holstebro sem er í öðru sætinu en á leik til góða.Fleiri fréttir

Sjá meira