Enski boltinn

Okkar menn fengu ekki eina mínútu í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helder Costa fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Helder Costa fagnar sigurmarki sínu í kvöld. Vísir/Getty

Íslensku landsliðsmennirnir Ragnar Sigurðsson og Jón Daði Böðvarsson sátu allan tímann á bekknum þegar lið þeirra spiluðu í ensku b-deildinni í kvöld.

Úlfarnir hans Jóns Daða unnu þá 2-1 endurkomusigur á Brentford en Fulham, lið Ragnars, gerði 2-2 jafntefli á heimavelli á móti Blackburn Rovers.

Sigur hefði komið Fulham í hóp sex efstu liða deildarinnar en liðið fékk á sig jöfnunarmark á fjórðu mínútu í uppbótartíma. Lucas Joao skoraði markið og Fulham er áfram í sjöunda sætið. .

Fulham komst tvisvar yfir í leiknum, fyrst með marki Sone Aluko á 45. mínútu og svo með marki Gohi Cyriac á 86. mínútu. Blackburn hafði jafnað með marki Craig Conway úr vítaspyrnu á 79. mínútu.

Wolves skoraði tvö mörk á síðustu fjórum mínútum og tryggði sér 2-1 útisigur á Brentford. Matt Doherty jafnaði á 86. mínútu og Helder Costa skoraði sigurmarkið á 89. mínútu.

Brentford var búið að vera yfir frá 31. mínútu þegar bakvörðurinn Maxime Colin skoraði fyrir Brentford.
Fleiri fréttir

Sjá meira