Viðskipti innlent

Bein útsending: Seðlabankinn rökstyður óbreytta stýrivexti

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Þetta er fyrsta stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans frá afnámi fjármagnshafta.
Þetta er fyrsta stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans frá afnámi fjármagnshafta. vísir/eyþór

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands mun rökstyðja ákvörðun sína um óbreytta stýrivexti í beinni útsendingu hér á Vísi klukkan tíu. Þetta er fyrsta stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans frá afnámi fjármagnshafta en hún er í takti við spár bankanna.

Sem fyrr segir verða meginvextir bankans óbreyttir, eða 5 prósent. Í yfirlýsingu frá Seðlabankanum segir að of snemmt sé að segja til um efnahagsleg áhrif síðustu skrefa við losun fjármagnshafta. Hugsanlegt sé að betra jafnvægi skapist á milli inn- og útstreymis á gjaldeyrismarkaði, en skammtímahreyfingar kunni að aukast líkt og sést hafa merki um síðustu daga.

Greiningardeildir bankanna töldu ólíklegt að afnám hafta myndi hafa áhrif á ákvörðun peningastefnunefndar og leiða til hærri stýrivaxta, en höftin voru afnumin að fullu í gær.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar auk seðlabankastjóra kynntu afnám hafta síðastliðinn sunnudag. Ákvörðunin þýðir að gjaldeyrishöft á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði voru afnumin að fullu með nýjum reglum Seðlabankans um gjaldeyrismál, en reglurnar tóku gildi í gær.

Samtímis því sem ákvörðun um afnám hafta var tilkynnt var upplýst að hagfræðingarnir Ásgeir Jónsson, dósent við hagfræðideild HÍ, Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, og Illugi Gunnarsson, fyrrverandi ráðherra, hefðu verið skipuð í verkefnisstjórn um endurmat peningastefnunnar.

Sjá má beinu útsendinguna í spilaranum hér að neðan klukkan 10.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira