Leikjavísir

Ghost Recon: Wildlands - Skemmtigarður samspilsins

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjórir Draugar salla niður glæpamenn í Bólivíu.
Fjórir Draugar salla niður glæpamenn í Bólivíu. Ubisoft
Tom Clancy‘s Ghost Recon: Wildlands er gríðarlega stór leikur. Mögulega einn af þeim stærstu og hann lítur stórkostlega vel út. Hann er þó ekki gallalaus og verkefni leiksins eiga það til að verða nokkuð einsleit. GRW er hins vegar þrususkemmtilegur og þá sérstaklega þegar hann er spilaður með vinum.

Í rauninni er hann risastór og fjölbreyttur skemmtigarður þar sem vinir geta leikið sér saman.

GRW gerist í Bólivíu eftir að glæpasamtök hafa í raun tekið yfir stjórn landsins og framleiða þar óhemju mikið af fíkniefnum og selja út um heim allan. Eftir að samtökin, sem kallast Santa Blance, gera sprengjuárás á sendiráð Bandaríkjanna eru Draugarnir sendir á vettvang og markmið þeirra er að ganga frá samtökunum og yfirmanni þeirra El Sueño. Spilarar eru settir í hlutverk Nomad, sem leiðir fjögurra manna teymi Drauga. Þessir fjórir hermenn þurfa að vaða í gegnum þúsundir glæpamanna til að komast að toppnum á metorðastiganum.

Draugarnir eru studdir af Kate Bowman, sem vinnur hjá CIA, hún veitir þeim oftast litlar sem engar upplýsingar, eins og hún á að gera, og segir þess í stað eitthvað á þessa leið: „Hérna eigið þið að drepa þennan. Ráfið bara um. Þið munið finna hann á endanum.“

Sögusvið leiksins hefur ekki fallið í kramið í Bólivíu og yfirvöld þar hafa lagt fram formlega kvörtun til franska fyrirtækisins Ubisoft.

Spilarar þurfa að leysa ýmis verkefni í rúmlega tuttugu héruðum Bólivíu og handsama eða fella alla yfirmenn Santa Blanca, einn í einu. Draugarnir þurfa einnig að berjast gegn hernum og byggju upp uppreisn gegn Santa Blanca. Nauðsynlegt er að safna birgðum fyrir uppreisnina sem hægt er að nýta til að auka hæfni hermannanna.

Þá er hægt að kalla eftir aðstoð frá uppreisnarmönnunum eins og sprengjuárásum og biðja þá um að skutla farartækjum til þín. Auk þess þarf að finna vopn og viðbætur við vopn sem eru á víð og dreif um risastórt kort GRW.

Á ferð um Bólivíu, þegar maður er að spila einn, þá ræða hermennirnir saman og segja jafnvel nokkra fyndna brandara. Einn sem snýr að typpi hermanns er einkar fyndinn. Spjallið léttir manni lund á löngum ferðalögum og er skemmtilegt, en annars eru persónur leiksins frekar litlausar.

Bólivía lítur einkar vel út.Ubisoft
Verkefni Drauganna, sem snúa að sögu leiksins eru tiltölulega fjölbreytt og skemmtileg, en gallinn er sá að það er heill haugur að hliðarverkefnum sem spilarar þurfa einnig að leysa, sem eru nánast öll eins.

Þessi hliðarverkefni snúa að mestu að því að ræna birgðum, hræða hörkutól (sem eru oftast viðkvæmustu grey inn við beinið þegar maður kynnist þeim betur), að brjóta sér leið inn í hús og skjóta menn og stela gögnum og að slökkva á loftnetum og drífa sig svo að öðrum loftnetum til að slökkva líka á þeim.

Bólivía kemur einkar vel út í GRW og það er greinilegt að mikið hefur verið lagt að gera það vel. Hvort sem það eru saltsléttur, fjöll, frumskógar eða fen þá lítur umhverfi leiksins mjög vel út. Þar að auki hefur mismunandi landslag áhrif á hvernig best er að nálgast verkefnin sem liggja fyrir. Hvort best sé að taka með sér hríðskotabyssu eða langdrægan riffil og þess háttar.

Þrátt fyrir marga og góða kosti GRW eru hann ekki án galla.

Spilarar þurfa ítrekað að fljúga þyrlum og flugvélum í GRW. Hvort sem það er til þess að koma birgðum til uppreisnarmanna eða að ferðast um Bólivíu, sem er mjög stór. Að fljúga þessum þyrlum og flugvélum er ekki ósvipað og að fljúga þvottavél, geri ég mér í hugarlund.

Engin fín stýring er í boði, hvort sem spilað er með lyklaborði eða stýripinna, (Ég spilaði leikinn bæði í PS4 og í PC) en það sama er í raun í gangi á farartækjum á jörðu niðri. Annað hvort beygir þú af öllu afli, eða þú beygir ekki neitt. Sama gildir um að hækka flugið eða lækka á þyrlum þar sem það virðist breytast hvað takkarnir gera eftir því hvað þyrlan er að fara hratt. Það gerðist örsjaldan að mér tókst að lenda þyrlu án þess að gera það af svo miklu afli að ekkert rófubein ætti að vera í heilu lagi um borð.

Sumar þyrlur bera einnig vopn, sem gjörsamlega ómögulegt er að miða af einhverju viti. Í fyrsta lagi er enginn kross sem segir til um hvert þær skjóta, þar sem þær eru fastar á þyrlunni, og það er einfaldlega ekki hægt að beina þyrlunum almennilega niður eða upp (þegar maður er að reyna það).

Mótorhjól eru mjög hentug til að ferðast um Bólivíu. Á góðum krossara hefði maður haldið að það væri auðvelt að stytta sér leið yfir akra og í gegnum skóga og sú er oft raunin, en það er ekki vandræðalaust. Hjólin skoppa og skrölta vegna minnstu dælda á jörðinni og maður er í raun meira á lofti en með hjólin á jörðinni og því getur verið erfitt að hafa nokkra stjórn á hjólinu.

Oft á tíðum fannst mér eins og ég væri kominn aftur um borð í helvítis MAKO-inn úr Mass Effect 1.

Óvinir birtast upp úr þurru

Á einum tímapunkti ákvað ég að sitja fyrir bílalest og stela olíuflutningabíl fyrir uppreisnina. Ég skoðaði kortið og sá hvar bílalestin var og hvert hún stefndi. Setti svokallaðan vegapunkt á bílalestina og kom mér fyrir. Innan skamms sá ég að að punkturinn nálgaðist mig óðfluga og ég miðaði rifflinum mínum eftir veginum. Klár í slaginn.

Punkturinn kom eftir veginum, en bílalestin var ekki þarna. Vegapunkturinn, sem átti að tákna bílalestina, táknaði ekki neitt og ferðaðist af sjálfsdáðum eftir veginum.

Óvinir eiga það til að stinga upp kollinum í herstöðvum og þorpum, eftir að spilarar eru komnir þangað. Sem getur verið pirrandi.

Þessir gallar virðast þó vera algengari í PC en í PS4 og Ubisoft hefur heitið því að gefa út plástra fyrir leikinn. Strax á fyrsta degi var gefinn út plástur og fyrirtækið segist vera að vinna að því að laga farartæki í leiknum.

Skipuleggja þarf árásir á herstöðvar og þorp vel.Ubisoft
Til að taka þetta saman, þá þá lítur umhverfi GRW fáránlega vel út og mikið hefur verið lagt í að gera það almennilega. Spilarar hafa mikið frelsi í leiknum til að gera það sem þeim sýnist og hvenær sem þeim sýnist. Spilunin sjálf er einnig skemmtileg, en ýmsir gallar og þá sérstaklega varðandi farartæki og endurtekningar draga svolítið úr gæðunum.

Skotbardagar eru skemmtilegir í leiknum, fyrir utan það að þegar tölvan er að stýra hinum Draugunum sýna þeir mjög lítið frumkvæði (Óvinirnir sjá þá reyndar ekki og þeir geta skotið í gegnum veggi, sem er fínt). Byssurnar eru flottar og fjölbreyttar og það er hægt að breyta sinni persónu á margvíslegan hátt.

Það er samt greinilegt að Gost Recon Wildlands var þróaður með samspilun (Co op) í huga og þar skín leikurinn svo sannarlega. Hann bíður upp á óvæntar uppákomur, fyndin atvik og skemmtileg klúður (Vinir manns geta jafnvel slysast til að kasta handsprengjum inn í hús þar sem maður er að yfirheyra vondan karl. GARÐAR!)

Vinir geta þróað með sér mismunandi hlutverk. Einn er leyniskyttan, annar sér um faratækin og flóttan því það þarf oft að flýja og þá sérstaklega á hærri erfiðleikastigum. Aðrir geta sérhæft sig í eftirliti, gert drónann sinn betri og betri sem nota má til að finna óvini og merkja þá, svo leyniskyttan og aðrir eigi auðveldara með að skjóta þá. Það er af nógu að taka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×