Skoðun

Að kyrkja gullgæsina

Gunnar Þór Gíslason skrifar
Íslenskt hagkerfi stendur frammi fyrir lúxusvandamáli sem er gríðarleg velgengni ferðaþjónustunnar. Þessari velgengni skapar svo mikið gjaldeyrisinnstreymi að verð á hverri evru hefur lækkað um nær 20% á einu ári þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi keypt gjaldeyri fyrir tæplega 400 milljarða króna árið 2016.

Nú er aftur ekki neitt tiltökumál að skreppa til Englands á fótboltaleik, innflutningsverslun blómstrar sem aldrei fyrr og elstu menn muna ekki eftir því að verðbólga hafi áður mælst svona lág í þetta langan tíma. Er þetta ekki bara frábært?

Fyrir marga er ástandið fínt þegar til skamms tíma er litið. Fyrir hagkerfið í heild er þessi styrking krónunnar hins vegar mjög slæm þegar við horfum aðeins lengra fram á veginn. Neikvæð áhrif styrkingar krónunnar eru þegar farin að koma fram í fjölmiðlum. Sjómenn kvarta yfir færri krónum sem þeir fá fyrir hlutinn sinn, minni og meðalstór útgerðarfyrirtæki eru að lenda í rekstrarvandræðum og fiskvinnslufyrirtæki segja upp starfsfólki.

Ferðaþjónustan fer heldur ekki varhluta af styrkingu krónunnar. Tekjurnar lækka en kostnaðurinn stendur í stað eða hækkar. Þar að auki erum við að hætta á að ferðamönnum ofbjóði innlent verðlag sem hækkar í þeirra gjaldmiðli þegar krónan styrkist. Belgi sem fer út að borða í Reykjavík borgar a.m.k. 20% fleiri evrur fyrir sama mat og hann fékk á sama stað fyrir ári síðan.

Ef ekkert er að gert mun krónan styrkjast enn meira á þessu ári. Nýleg losun hafta mun frekar auka á innstreymi gjaldeyris því erlendir fjárfestar eru í auknum mæli farnir að sjá tækifæri í fjárfestingu á innlendum hlutabréfamarkaði. Áður en við vitum þá verður evran komin undir 100 kr. Við þær aðstæður mun fjöldi fiskvinnslufyrirtækja um allt land hætta starfsemi, kvótinn mun færast enn frekar frá smáútgerðum til stóru fjársterku útgerðarfélaganna, fjöldi smáfyrirtækja sem hafa byggt upp ferðaþjónustu víða um land verða farin á hausinn og Ísland á góðri leið með að verðleggja sig út af ferðamannamarkaðnum.

Rétttrúuðum hagfræðingum finnst þetta ekkert stórmál því þegar við erum búin að eyðileggja bæði ferðaþjónustuna og sjávarútveginn með ofursterkri krónu þá mun hún veikjast aftur og þessar atvinnugreinar byggjast upp á nýtt. Það er að nokkru leyti rétt því að á meðan við höfum góð fiskimið við landið mun fiskur verða veiddur við Íslandsstrendur, það er bara spurning hver veiðir hann og hvar hann verður unninn. Það er hins vegar ekki svo sjálfgefið að ferðaþjónustan byggist jafn hratt upp á nýjan leik því þótt að Ísland sé í tísku núna þá er vel mögulegt að einhver annar áfangastaður fangi athygli ferðamanna eftir að við höfum verðlagt okkur út af markaðnum.

Lausnin á þessu lúxusvandamáli, sem hinn mikli uppgangur ferðþjónustunnar skapar, er ekki að skemma útflutningsgreinar Íslands með því að leyfa krónunni að ná ofurstyrk eða með því að setja ofurskatta eða aðgönguhindranir á ferðaþjónustuna. Lausnin felst í því að íslenskt þjóðfélag þarf að nýta gjaldeyrisinnstreymið til að fjárfesta erlendis. Auðvitað má reyna að beita valdboði til að ná fram þessari hegðun en auðveldast er að ná þessu markmiði með því að lækka vexti.

Á Íslandi hafa vaxtabreytingar önnur áhrif á einkaneyslu heldur en víðast hvar annars staðar því óverulegur hluti lána íslenskra neytenda er á óverðtryggðum breytilegum vöxtum og vaxtabreytingar hafa takmörkuð áhrif á afborganir eldri lána. Vextir hafa hins vegar áhrif á fjárfestingarákvarðanir. Það er t.d. lítill hvati fyrir lífeyrissjóði að fjárfesta í erlendum skuldabréfum ef vextir eru 5% hærri á Íslandi en í Þýskalandi og krónan í styrkingarferli.

Ef við breytum viðhorfi okkar til vaxta og horfum til þeirra sem tækis til að hafa áhrif á fjármagnshreyfingar frekar en einkaneyslu þá leiðir af því að land með mikinn hlutfallslegan viðskiptaafgang ætti að halda vöxtum lágum til að hvetja til útflæðis fjármagns og stemma stigu við ofrisi gjaldmiðilsins. Seðlabankinn ætti samkvæmt því að færa stýrivextina niður í núll en ekki halda þeim við 5% markið.

Stjórnvöld virðast hafa kveikt á því að ofurstyrkur krónunnar sé vandamál. Nú verða aðgerðir að fylgja orðum. Það er ekki nóg að setja málið í nefnd sem skilar af sér eftir 9 mánuði. Það verður að grípa til aðgerða fyrir sumarið. Á meðan undið verður ofan af hávaxtastefnu Seðlabankans gæti ríkisstjórnin lagt að bankanum að kaupa enn meiri gjaldeyri og nota hann til að kaupa t.d. upp skuldabréf Landsvirkjunnar og ríkissjóðs sem útgefin eru í erlendri mynt.

Íslendingar eru í upplagðri stöðu til að nýta uppganginn í ferðaþjónustunni til að ná varanlegum lífskjarabata. Ráðamenn mega ekki leyfa vaxtakreddum Seðlabankamanna að kyrkja gullgæsina okkar.




Skoðun

Sjá meira


×