Fótbolti

Mónakó sló Manchester City út á fleiri mörkum á útivelli | Sjáðu mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Franska liðið Mónakó er komið áfram í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir 3-1 sigur á enska liðinu Manchester City í kvöld í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum keppninnar.

Mónakó vann þar með á fleiri mörkum skoruðum á útivelli en bæði liðin skoruðu sex mörk í þessum tveimur leikjum.

Manchester City vann fyrri leikinn 5-3 en þessi þrjú útivallarmörk sem Mónakó skoraði á Ethiad-leikvanginum skiluðu liðinu áfram .

Það er samt ótrúlegt að sex mörk hafi ekki dugað liði Pep Guardiola til þess að komast áfram en enn á ný var það dapur varnarleikur liðsins sem varð því að falli.

Leicester City er því eina enska liðið sem er eftir í Meistaradeildinni.

Markið sem réði endanlega úrslitum skoraði Tiemoue Bakayoko með skalla þegar þrettán mínútur voru eftir.

Heimamenn í Mónakó voru miklu sterkari frá byrjun og það var eftir gangi leiksins að franska liðið náði að komast yfir eftir aðeins sjö mínútna leiks.

Markið skoraði Kylian Mbappe strax á sjöundu mínútu eftir sendingu frá Bernando Silva en það var Benjamin Mendy sem sprengdi upp City-vörnina í upphafi sóknarinnar.

Kylian Mbappe hafði áður fengið fínt færi til að skora en bætti fyrir það með því að koma sínum mönnum í 1-0.

Benjamin Mendy var aftur á ferðinni á vinstri vængnum á 28. mínútu þegar hann komst upp að endamörkum og gaf út í teiginn þar sem Fabinho afgreiddi boltann í markið.

Mónakó var þar með komið í 2-0 og þau úrslit nægðu liðinu til að komast áfram.

Manchester City náði hinsvegar að minnka muninn í seinni hálfleik með marki Leroy Sane á 71. mínútu. Leroy Sane stýrði þá skoti Raheem Sterling í markið og City-menn voru á leiðinni áfram með þeim úrslitum.

Heimamenn í Mónakó áttu hinsvegar lokaorðið þegar Tiemoue Bakayoko kom Mónakó aftur tveimur mörkum yfir aðeins sex mínútum síðar. Tiemoue Bakayoko skallaði þá aukaspyrnu Thomas Lemar í markið.

Þetta var fyrsta alvöru sókn Mónakó-liðsins í seinni hálfleiknum en hún var gulls ígildi.
Fleiri fréttir

Sjá meira