Golf

Ólafía byrjar í dag: Í fyrsta sinn með atvinnukylfubera

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafía Þórunn slær í Ástralíu á dögunum.
Ólafía Þórunn slær í Ástralíu á dögunum. Vísir/Getty

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur í dag leik á Phoenix Open mótinu sem er hluti af LPGA-mótaröðinni. Þetta er fyrsta mót tímabilsins í Bandaríkjunum og hennar fyrsta síðan hún náði góðum árangri í Ástralíu í síðasta mánuði.

Ólafía hefur raunar komist í gegnum niðurskurðinn á báðum mótum sínum til þessa á tímabilinu og situr í 77. sæti peningalistans þrátt fyrir að hafa misst af tveimur sterkum mótum.

Sjá einnig: Ólafía í sannkölluðum stjörnuráshóp

Hún kom til Íslands eftir mótið í Ástralíu en hélt svo til Norður-Karólínu, þar sem hún varí háskóla á sínum tíma, og æfði í viku.

„Þar var frekar kalt og ég spilaði í öllum þeim fötum sem ég gat,“ sagði hún í léttum dúr. „Svo komum við hingað til Phoenix og það hefur verið frekar heitt. Það er áskorun að spila í slíkum hita og þess vegna hef ég verið að æfa eftir hádegi síðustu daga.“

Sjá einnig: Ólafía Þórunn og Valdís Þóra eiga báðar möguleika á að keppa á ÓL í Tokýó

Hún segir að það hafi verið erfitt að venjast hlýja loftslaginu í eyðimörkinni. „Á fyrsta degi var ég búin á því eftir 9-10 holur. Maður hefur prófað því ýmislegt á fyrstu vikum ársins en þetta er búið að vera ótrúlega gaman.“

Ólafía Þórunn. Vísir/Getty

Hjálp frá öðrum
Ólafía gekk frá samningi við KPMG í síðasta mánuði og er komin með nokkuð stóra umgjörð í kringum sig. Hún er til að mynda með umboðsmann og kylfubera.

„Ég gleymdi stundum að segja honum frá hlutunum,“ sagði Ólafía spurð um hvernig henni þætti að vera nú með umboðsmann sem hugaði að öllum hennar málum utan vallarins.

„Maður er svo vanur því að sjá um allt sjálfur. Ég er að læra að setja vinnuna yfir aðra og það er allt í lagi að fá stundum hjálp frá öðrum,“ segir hún.

Sjá einnig: LPGA golfstjarnan okkar er ekki lofthrædd

Kylfuberinn hennar hefur fjórtán ára reynslu af starfinu og valdi Ólafía hann úr hópi umsækjenda.

„Hann mun hjálpa mér með heilmargt, eins og að meta aðstæður og fleira slíkt. Hann þekkir alla vellina á mótaröðinni mjög vel og veit hvernig maður á að haga sér. Samstarfið hefur gengið vel hingað til og verður vonandi áframhald á því,“ segir hún.

Stórmót handan við hornið
Hún segir að það sé ekkert sérstakt sem hún hafi í huga fyrir mótið í Phoenix. Almennt vilji hún halda áfram að bæta sinn leik.

„Ég er alltaf að reyna að bæta mig eitthvað smá á öllum sviðum - púttum og slætti - allt hjálpar til. Ef maður á mjög góðan dag í enium þætti þá auðveldar það allt hitt,“ segir hún.Eftir mótið í Phoenix tekur við mót strax um næstu helgi sem fer fram í Kaliforníu. Ef henni gengur vel á þessum tveimur mótum gæti hún fengið þátttökurétt á Ana Inspiration um mánaðarmótin, fyrsta risamóti ársins.

„Aðalmarkmiðið mitt fyrir helgina er bara að njóta þess að vera hérna. Ég set mér aldrei nein sérstök niðurstöðumarkmið en ef ég geri allt rétt verður niðurstaðan vonandi góð.“

Ólafía verður eins og áður hefur komið fram í ráshópi með þekktum kylfingum, Cheyenne Woods og Michelle Wie, fyrstu tvo daga mótsins. Hún hefur leik klukkan 14.33 en útsending Golfstöðvarinnar hefst klukkan 22.00 í kvöld.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira