Erlent

Rússneskir njósnarar ákærðir vegna Yahoo-lekans

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Verður þetta í fyrsta sinn sem rússneskir embættismenn verða kærðir í tengslum við tölvuglæpi í Bandaríkjunum.
Verður þetta í fyrsta sinn sem rússneskir embættismenn verða kærðir í tengslum við tölvuglæpi í Bandaríkjunum. vísir/getty
Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna mun tilkynna síðar í dag að tveir rússneskir njósnarar, auk tveggja tölvuþrjóta, verði ákærður í tengslum við netárás sem varð til þess að yfir 500 milljónir notendareikninga hjá Yahoo voru hakkaðir árið 2014.

Fjallað er um málið á vef Washington Post og þar segir að Rússarnir tveir séu meðlimir FSB, rússnesku leyniþjónustunnar. Verður þetta í fyrsta sinn sem rússneskir embættismenn verða ákærðir í tengslum við tölvuglæpi í Bandaríkjunum.

Ákærurnar er í nokkrum liðum samkvæmt heimildum Washington Post og tengjast tölvuárásum, þjófnaði á upplýsingum og viðskiptanjósnum.

Yahoo tilkynnti um netárásina á síðasta ári en meðal þess sem tölvuþrjótarnir komust í voru upplýsingar um notendur Yahoo á borð við nöfn, tölvupóstföng, lykilorð og fæðingardaga.

Málið tengist ekki netárásum á tölvuþjóna Demókrataflokksins né rannsókn FBI, bandarísku alríkislögreglunnar, á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum á síðasta ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×