Körfubolti

Stólarnir mega helst ekki sjá þessa tölfræði fyrir kvöldið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Anton

Tindastóll og Keflavík hefja í kvöld einvígi sitt í átta liða úrslitum Domino´s deildar karla í körfubolta en liðið sem fyrr vinnur þrjá leiki tryggir sér sæti í undanúrslitum úrslitakeppninnar.

Tindastóll endaði í þriðja sæti Domino´s deildar karla en Keflavík í því sjötta. Bæði liðin töpuðu í lokaumferð deildarkeppninnar en Stólarnir náðu ekki að fagna sigri í síðustu tveimur deildarleikjum sínum.

Tindastóll tapaði fyrir Grindavík á heimavelli og Haukum á útivelli í síðustu tveimur leikjum sínum. Bæði voru töpin þó eins naum og þau verða, Tindastólsliðið tapaði á flautukörfu á heimavelli á móti Grindavík og með þremur stigum á útivelli á móti Haukum.

Tapleikirnir tveir setja Stólanna hinsvegar í flokk með liðum sem hefur ekki gengið alltof vel í úrslitakeppninni í gegnum tíðina. Stólarnir mega nefnilega helst ekki sjá eftirfarandi tölfræði fyrir leik kvöldsins en átján ár síðan að lið í sömu stöðu komst áfram í undanúrslitin.

Aðeins þrjú lið með heimavallarrétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar hafa komið inn í úrslitakeppnina með tveggja leikja taphrinu á bakinu á þessari öld og öll þrjú duttu þau út úr átta liða úrslitunum.

Skallagrímsliðið frá 2007, KR-liðið frá 2003 og Tindastólsliðið frá 2000 voru öll með heimavallarrétt í átta liða úrslitunum þrátt fyrir að tapa tveimur síðustu leikjum sínum fyrir úrslitakeppni.

Tvö þeirra, KR 2003 og Tindastóll 2000, töpuðu báðum leikjum sínum í átta liða úrslitunum og þar með fjórum síðustu leikjum tímabilsins en Skallagrímsliðið náði að vinna einn leik í átta liða úrslitunum.  Borgnesingar voru hinsvegar sendir í sumarfrí í oddaleiknum í Fjósinu.

Eina liðið sem hefur komist í undanúrslitin í slíkri stöðu, síðan að úrslitakeppnin varð að átta liða keppni vorið 1995, er lið Grindavíkur frá árinu 1999. Grindavík vann þá 2-0 sigur á KR í átta liða úrslitunum en það fylgir líka sögunni að KR-ingar töpuðu líka síðustu tveimur leikjum sínum fyrir úrslitakeppni.  Grindavík tapaði síðan 3-1 á móti verðandi Íslandsmeisturum Keflavíkur í undanúrslitunum.


Lið með heimavallarrétt í átta liða úrslitum sem töpuðu tveimur síðustu deildarleikjum sínum fyrir úrslitakeppni:

Skallarímur 2007 - datt út í átta liða úrslitum (1-2 á móti Grindavík)
KR 2003 - datt út í átta liða úrslitum (0-2 á móti Njarðvík)
Tindastóll 2000 - datt út í átta liða úrslitum (0-2 á móti KR)
Grindavík 1999 - - datt út í undanúrslitum (1-3 á móti Keflavík)Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira