Skoðun
Birgir Guðjónsson læknir.

Þráhyggja framhald - Mál að útskýra

Birgir Guðjónsson skrifar

Ég þakka hinum „sjálfstæða“ lögmanni Jóhanni Hjartarsyni, sem á sínum tíma sendi inn málsgögn með nánast skjaldarmerkjum DeCode Genetics, kveðjuna til mín í Fréttablaðinu 7.mars sl.

Merkilegt er að við virðumst sammála um örfá atriði eins og hann ritar; „Misnotkun lyfja í afreksíþróttum er alvarlegt vandamál sem verður að taka föstum tökum.“ Svo er gert á alþjóðavettvangi, síðast þegar nú árið 2017 eru gullverðlaun frá Ólympíuleikunum í Beijing 2008 tekin af Usain Bolt þegar við endurrannsókn finnast ólögleg lyf í sýni félaga hans í boðhlaupssveit. En hver eru tökin á Íslandi?

Hann hefur samúð með „þráhyggju“ minni og lætur í ljós von um að „mál linni“. Það gæti kannski gerst ef raktar eru staðreyndir málsins sem hann skautar framhjá eins og góður lögmaður. Hann skilgreinir þar nánar viðkomandi einstaklinga. Þegar Kári Stefánsson, forstjóri DeCode, sækist eftir að taka að sér mikilvægar rannsóknir sem geta skipt sköpum fyrir örlög manna, gefur það tilefni til skýringa á þráhyggjunni.

Rifjað verður upp það lyfjamál sem olli undrun margra og umfjöllun langt út fyrir landsteina. Ég taldi það frá fyrsta degi vera stórskandal og reyndi af fremsta megni að útkljá eftir réttum leiðum.

Ég þakka Jóhanni ummæli um þekkingu mína á læknisfræði en hann telur mig sennilega ekki vita mikið um neitt annað. Mér er ljúft að upplýsa að ég var um tíma samtímis formaður Laganefnda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Frjálsíþróttasambands Íslands og Fimleikasambands Íslands og tók þátt í að endurskoða lög og reglur þeirra allra. Ég sótti reglulega þing Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins þar sem sífellt var fjallað um lyfjamál og átti þar þátt í reglubreytingum og var 12 ár í Læknanefndinni sem aðallega fjallaði um lyfjamál. Ég var a.m.k. fjórum sinnum fulltrúi ÍSÍ á fundum Alþjóðaólympíunefndarinnar um lyfjamál. Ég kynnti og þýddi breytingar og skrifaði a.m.k. hluta bálksins um lyfjamál sem ÍSÍ samþykkti og lyfjadómstóll átti að fara eftir. Ég hlýt því að geta skynjað þegar farið er að dæma eftir öðrum forsendum.

Flest lyfin á bannlista sem Læknanefnd Alþjóðaólympíunefndarinn ein skilgreinir eru nauðsynleg í læknisfræði en bönnuð þegar þau eru sannanlega misnotuð í íþróttum þ.á.m. jafnvel insúlín og hjartalyf. Ef íþróttamaður þarf á lyfjum að halda sem eru á bannlista vegna vel skilgreindra sjúkdóma, getur viðkomandi lækna/lyfjaráð veitt undanþágur og þá koma jafnvel kynsterar og amfetamín til greina.

Finnist hins vegar lyf í sýni sem ekki hefur verið veitt undanþága fyrir er það refsivert sama hvaða lyf það er. Ef síðari skýringar ættu að gilda þyrfti engin lyfjapróf. Í undantekningartilfellum er hægt að milda refsingu.

Astmalyf er hvað mest sótt í af íþróttamönnum. Á vetrarleikunum í Lillehammer sögðust 70-80% keppanda þurfa astmalyf. Þörfin þarf að vera staðfest með áreynsluprófi og viðurkennd af viðkomandi læknaráði. Ég tók þátt í að fara yfir um 1.200 áreynslupróf í setu minni í Læknanefnd IAAF. Fæst stóðust skilgreiningu.

Átakamál
Það var strax augljóst vegna fjölskyldu- og félagstengsla að það yrði átakamál þegar astmalyf fannst í sýni tengdadóttur Kára Stefánssonar og fyrirliða KR liðs sem var nýbúið að vinna marga titla, eftir að hún hafði lýst því yfir við sýnistöku að hún tæki engin lyf. Viðurlög við slíku eru 2 ára keppnisbann og tap árangurs.

Viðkomandi alþjóðasérsambönd hafa endanlega lögsögu í lyfjabrotum innan íþróttar sinnar. Vitandi að munurinn á Jóni og séra Jóni er alltaf til staðar í þjóðfélaginu reyndi ég að finna einhverja réttlætingu fyrir lyfjatökunni og fá mildari dóm en 2 ár og tap margra titla. Til þess þurfti samþykki viðkomandi alþjóðasérsambands sem fékkst og einnig samþykki Alþjóðaólympíunefndarinnar. Alþjóðafrjálsíþróttasambandið hefði ekki gefið eftir.

DeCode lögmaðurinn lýsir þessari viðleitni af fyrirlitningu enda þurfti ekki, því „hlutlausir“ dómendur sýknuðu jafnvel þegar tengdadóttir Kára lagði fram skjöl sem sýndu að hún hafi EKKI áreynsluastma. Það er sama hvaða frama hinir „æruverðugu“ dómendur hafa síðar náð þá stenst niðurstaðan ekki alþjóðareglur um lyfjamál. Dómendur segja óbeinlínis að lyfjareglur gildi ekki um skjólstæðinga Kára og forseta ÍSÍ. Þessi dómur gat skapað það fordæmi að eftirá afsakanir ættu að leiða til sýknunar og gera lyfjaeftirlit máttlaust.

Ef áhrif Kára á „hlutlausa“ dómendur eru svona mikil hvað þá með á aðra? Hversu oft hefur svipað gerst? Svo býðst Kári til að taka að sér greiningu lífssýna sem geta skorið úr um sekt eða sýkn manna í sakamálum.

Ég hélt að ég þyrfti ekki að upplýsa lögmanninn að „endanlegur dómur hlutlausra dómenda“ neðsta dómstigs er ekki endilega „endanlegur“. Það eru nokkur dómstig í íþróttahreyfingunni eins og í þjóðfélaginu. Í íþróttum er það endanlega Alþjóðaíþróttadómstóllinn í Lausanne.

Ég taldi áfrýjun nauðsynlega vegna fordæmis. Hafi menn orðið óhressir þegar ég dirfðist að ákæra má segja að þeir yrðu óðir þegar ég reyndi áfrýjun, þó aðeins innan ÍSÍ. Viðbrögð má sjá í fundargerðum ÍSÍ frá þessum tíma. Aðilar hafa sennilega talið að seinni dómendur yrðu ekki eins auðsveipir og tókst að hindra áfrýjun.

Þráhyggju mína eins og Jóhann lýsir hefði endanlega mátt útkljá a.m.k. í réttarsal Alþjóðaíþróttadómstólsins í Lausanne. Jóhann vissi sennilega að málskjöl merkt DeCode hefðu þar lítt dugað, dómarar færu eftir reglum og hann hefur séð fyrir sér niðurstöðuna og þorði ekki. Ég hefði boðið honum á góðan veitingastað til huggunar.

Eftir þetta mun ég a.m.k. um sinn reyna að bæla niður þráhyggju mína um ósvífnasta dóping svindl sem ég hef vitað um, en mun halda áfram að hafa áhyggjur af siðferði íþróttahreyfingarinnar, markleysi lyfjaeftirlits og áhrif DeCode á samfélagið.

Höfundur var viðriðinn fræðslu og eftirlit um lyfjanotkun í íþróttum um tveggja áratuga skeið innanlands sem á alþjóðavettvangi.
 
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira