Skoðun
Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Menntastefna í mótun

Skúli Helgason skrifar

Mikil og góð vinna stendur nú yfir í Reykjavík við að greina og þróa leiðir til að bæta starfsumhverfi í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi. Þar er forgangsmál að fjölga leikskólakennurum, grunnskólakennurum og fagfólki í frístundastarfi samhliða því að bæta vinnuaðstæður þeirra. Þá er verið að leggja lokahönd á tillögur um hvernig megi nýta fjármagn á betri, sanngjarnari og árangursríkari hátt m.a. með nýjum úthlutunarlíkönum. Á sama tíma hefur borgarstjórn sameinast um að móta menntastefnu Reykjavíkur til 2030.

Tilgangurinn með mótun menntastefnu er að skapa víðtæka samstöðu í skólasamfélaginu um framtíðarsýn og mikilvægustu markmið í málaflokknum og aðgerðir til að ná þeim fram. Þar leggjum við áherslu á að virkja þann fjölbreytta mannauð sem ber uppi skólastarf í borginni: stjórnendur, kennara og annað starfsfólk, foreldra og nemendur auk fræðasamfélagsins. Nú stendur yfir hugmyndasöfnun meðal þessara aðila og munu á fimmta hundrað manns leggja sitt af mörkum í fyrsta áfanga auk þess sem leitað verður álits almennings. Framundan er síðan vinna með öllum starfsmönnum á ríflega 100 starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs.

Útgangspunktur vinnunnar er að skilgreina þá hæfni í víðum skilningi sem við teljum mikilvægast að nemendur hafi öðlast við lok skólagöngunnar og hvaða breytingar þurfi að gera á skóla- og frístundastarfi borgarinnar til að nemendur öðlist þessa hæfni. Í skóla- og frístundastarfi borgarinnar er unnið þrekvirki á hverjum degi en víða má bæta, sbr. annmarka á framkvæmd skóla án aðgreiningar, brýna þörf á því að efla list- og verknám, vísbendingar um aukinn kvíða nemenda o.s.frv. En við nálgumst verkið með það í huga sem fræðimenn allt frá Artistóteles til Pasi Sahlberg hafa miðlað að ekkert verkefni stjórnvalda er mikilvægara en að standa vel að menntun íbúanna og gott samfélag byggir ekki síst á því að allir eigi kost á góðri menntun sem gerir þá færa um að rækta sinn garð í samræmi við eigin áhuga og hæfileika og sinna um leið samfélagslegum skyldum.
 
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira