Handbolti

Þórir besti þjálfari heims í fimmta sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson.
Þórir Hergeirsson. vísir/ernir

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, var kosinn besti þjálfari heims fyrir árið 2016. Þórir var besti kvenþjálfarinn en Didier Dinart, þjálfari Frakka, var valinn besti karlþjálfarinn.  Þetta kemur fram á heimasíðu Alþjóðahandboltasambandsins.

Þetta er í fimmta sinn sem Þórir er kosinn besti kvenþjálfari heims en hann fékk þessa útnefningu einnig fyrir árin 2011, 2012, 2014 og 2015. Þórir hefur því verið sá besti í heimi þrjú undanfarin ár.

Norska landsliðið vann tvö verðlaun undir stjórn Þóris á árinu 2016, fyrst brons á ÓL í Ríó og svo gull á Evrópumótinu í Svíþjóð í desember.

Þórir Hergeirsson hafði betur í baráttu við Olivier Krumbholz, þjálfara Frakka, en Þórir vann mjög öruggan sigur. Þórir fékk tvo þriðju atkvæða frá sérfræðingum og áhugamönnum.

Hollendingurinn Henk Groner varð þriðji í kosningunni eftir harða baráttu við Danann Kim Rasmussen en fimmta sætið í kjörinu fór til Rússans Evgeniy Trefilov.

Ísland átti einnig fulltrúa meðal besti karlþjálfara heims. Didier Dinart, þjálfari Frakka hafði þar betur í baráttunni við Norðmanninn Christian Berge og Veselin Vujovic frá Svartfjallalandi.  Íslendingar unnu titlana á árinu 2016 en komust samt ekki inn á topp þrjú.

Dagur Sigurðsson, þjálfari Evrópumeistara Þjóðverja, varð í fjórða sæti og Guðmundur Guðmundsson, þjálfar Ólympíumeistara Dana varð fimmti.Fleiri fréttir

Sjá meira