Handbolti

Þórir besti þjálfari heims í fimmta sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson.
Þórir Hergeirsson. vísir/ernir

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, var kosinn besti þjálfari heims fyrir árið 2016. Þórir var besti kvenþjálfarinn en Didier Dinart, þjálfari Frakka, var valinn besti karlþjálfarinn.  Þetta kemur fram á heimasíðu Alþjóðahandboltasambandsins.

Þetta er í fimmta sinn sem Þórir er kosinn besti kvenþjálfari heims en hann fékk þessa útnefningu einnig fyrir árin 2011, 2012, 2014 og 2015. Þórir hefur því verið sá besti í heimi þrjú undanfarin ár.

Norska landsliðið vann tvö verðlaun undir stjórn Þóris á árinu 2016, fyrst brons á ÓL í Ríó og svo gull á Evrópumótinu í Svíþjóð í desember.

Þórir Hergeirsson hafði betur í baráttu við Olivier Krumbholz, þjálfara Frakka, en Þórir vann mjög öruggan sigur. Þórir fékk tvo þriðju atkvæða frá sérfræðingum og áhugamönnum.

Hollendingurinn Henk Groner varð þriðji í kosningunni eftir harða baráttu við Danann Kim Rasmussen en fimmta sætið í kjörinu fór til Rússans Evgeniy Trefilov.

Ísland átti einnig fulltrúa meðal besti karlþjálfara heims. Didier Dinart, þjálfari Frakka hafði þar betur í baráttunni við Norðmanninn Christian Berge og Veselin Vujovic frá Svartfjallalandi.  Íslendingar unnu titlana á árinu 2016 en komust samt ekki inn á topp þrjú.

Dagur Sigurðsson, þjálfari Evrópumeistara Þjóðverja, varð í fjórða sæti og Guðmundur Guðmundsson, þjálfar Ólympíumeistara Dana varð fimmti.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira