Viðskipti innlent

Íslensk útflutningsfyrirtæki komin að fótum fram

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Íslensk útflutningsfyrirtæki eru komin að fótum fram vegna styrkingar krónunnar. Þetta segir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sem segir að lækka hefði þurft stýrivexti til að sporna við styrkingunni. Seðlabankastjóri segir mikla spennu í hagkerfinu koma í veg fyrir frekari lækkun vaxta.

Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að halda stýrivöxtum óbreyttum var kynnt í morgun. Meginvextir Seðlabankans verða því áfram 5 prósent. Í yfirlýsingu nefndarinnar er vísað til þess að hagvöxtur var 7,2 prósent í fyrra sem er meira en Seðlabankinn gerði ráð fyrir. Ör vöxtur efnahagsumsvifa og skýr merki um spennu í þjóðarbúskapnum kalli á peningalegt aðhald svo að tryggja megi verðstöðugleika til meðal langs tíma.

Of mikill hagvöxtur 

Er þetta hugsanlega of mikill hagvöxtur?

„Sko auðvitað er það alveg ljóst að þetta er miklu meiri hagvöxtur heldur en Ísland ræður við til lengdar eftir að fullri atvinnu er náð. Of fullri atvinnu var náð 2015,“ segir Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.

Hann segir þennan mikla hagvöxt áhyggjuefni enda geti hann valdið enn meiri spennu í hagkerfinu.

Hvað stendur í vegi fyrir frekari lækkun vaxta?

„Það er náttúrlega þessi mikla spenna í hagkerfinu, og svo eru þættir sem vinna á móti,“ segir Már. Hann segir peningastefnunefnd nú vera í hlutlausum gír, það er hallist hvorki meira að hækkun né lækkun vaxta.

Óbreyttir stýrivextir vonbrigði

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir ákvörðun peningastefnunefndar vera vonbrigði.

„Ég hélt að með afnámi hafta væri að skapast rými til lækkunar vaxta. Við höfum verið undir verðbólgumarkmiði í ríflega þrjú ár núna. Verðbólguvæntingar til framtíðar eru undir verðbólgumarkmiði. Þannig að það eitt og sér er næg ástæða til vaxtalækkunar núna,“ segir Halldór.

Svikalogn hjá íslenskum útflutningsfyrirtækjum

Þá segir Halldór að lækka hefði þurft vexti til að sporna við mikilli styrkingu krónunnar. Vissulegi gangi margt vel í íslensku efnahagslífi um þessar mundir, en það eigi ekki við um íslensk útflutningsfyrirtæki.

„Það liggur hins vegar fyrir að þetta er svikalogn þegar að útflutningsgreinarnar eru komnar að fótum fram. Og það er einfaldlega staðreynd. Hliðarmarkmið Seðlabankans er að varðveita fjármálalegan stöðugleika og það er tómt mál í mínum huga að tala um stöðugleika þegar að aðal útflutningsgreinarnar eru komnar að fótum fram,“ segir Halldór.

Vaxtalækkun hefði verið merki um styrkleika

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir ákvörðun peningastefnunefndar ekki hafa komið á óvart, en hann hefði þó vonast eftir lækkun vaxta.

„Mér hefði fundist það svona vera merki um styrkleika og að menn hefðu trú á verkefninu sem að er fram undan og því að við værum nýbúin að losa höftin, að mestu, og þetta sýndi svona okkar styrk okkar efnahagslífs og krónunnar að við gætum stigið strax í kjölfar haftalosunar skref til að lækka vexti,“ segir Óli Björn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×