Körfubolti

Valskonur keyrðu yfir Grindvíkinga í seinni hálfleiknum | Grindavík fallið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagbjört Dögg Karlsdóttir lék vel fyrir Valsliðið í kvöld.
Dagbjört Dögg Karlsdóttir lék vel fyrir Valsliðið í kvöld. Vísir/Stefán

Valur vann öruggan fimmtán stiga sigur á Grindavík, 83-68, í fyrsta leik kvöldsins í 26. umferð Domino´s deildar kvenna í körfubolta.

Valsliðið er fjórum stigum á eftir Stjörnuliðinu í baráttunni um fjórða og síðasta sætið í úrslitakeppninni. Grindavík er áfram í neðsta sæti deildarinnar og með þessum úrslitum er ljóst að liðið er fallið í 1. deild.

Grindavík getur nú bara náð Haukum að stigum en verður alltaf neðar í töflunni á lélegri árangri í innbyrðisleikjum liðanna.  Haukar unnu Grindavík þrisvar sinnum í vetur.

Grindvíkurkonur unnu sinn fyrsta leik á árinu í síðasta leik og byrjuðu mjög vel á Hlíðarenda í kvöld.

Grindavík var þannig átta stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 26-18, og með sjö stiga forystu í hálfleik, 46-39.

Valskonur vöknuðu eftir hálfleiksræðu Ara Gunnarssonar þjálfara síns og töku öll völd í seinni hálfleiknum.

Valsliðið vann þriðja leikhlutann 23-14 og svo lokaleikhlutann 21-8 þar sem ekki stóð steinn yfir steini í leik gestanna úr Grindavík.

Mia Loyd átti enn einn stórleikinn með Val en hún endaði með 34 stig, 15 fráköst og 5 stoðsendingar. Hallveig Jónsdóttir skoraði 14 stig og Dagbjört Dögg Karlsdóttir var með 12 stig og 4 stoðsendingar.

Angela Marie Rodriguez skoraði 18 stig fyrir Grindavík og Íris Sverrisdóttir var með 17 stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira