Körfubolti

Benedikt: Sáum loksins hvað býr í þessu KR-liði

Ingvi Þór Sæmundsson í DHL-höllinni skrifar
Benedikt var ekki ánægður með sóknarleik sinna manna gegn KR.
Benedikt var ekki ánægður með sóknarleik sinna manna gegn KR. vísir/eyþór

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs Ak., sagði að sínir menn hefðu þurft að spila mun betur en þeir gerðu í leiknum í kvöld til að eiga möguleika gegn KR.

„Það vantaði töluvert upp á og í kvöld sáum við kannski loksins hvað býr í þessu KR-liði sem menn eru búnir að bíða eftir í vetur. Nú kannaðist maður við þá. Þeir hafa verið óþekkjanlegir í ansi mörgum leikjum í vetur en þeir eru greinilega að komast í gírinn,“ sagði Benedikt.

Þór spilaði fína vörn í fyrri hálfleik en liðið hitti ekki neitt allan leikinn. Til marks um það var þriggja stiga nýting gestanna aðeins 14%.

„Hittnin í kvöld var skelfileg. Við vitum að það þarf allt að ganga upp til að vinna þetta lið og þá þarf hittnin að vera aðeins yfir meðallagi. Hún getur ekki verið langt undir meðallagi eins og var í kvöld,“ sagði Benedikt sem hrósaði Tryggva Snæ Hlinasyni sem stóð sig vel í sínum fyrsta leik í úrslitakeppni á ferlinum.

„Mér fannst hann virkilega góður og hann er kominn á þann stað að höndla úrslitakeppnina. Núna er Þór búinn að fá aðlögun, við fáum ekki nema einn leik í aðlögun. Við þurfum að vinna næsta leik til að halda okkur á lífi,“ sagði Benedikt.

Um miðjan 4. leikhluta þurfti Tryggvi skyndilega að hætta leik og spilaði ekki meira það sem eftir lifði leiks.

„Það er tekið vel á honum inni í teig og menn fá að halda og ýta honum. Þetta tekur bara á hjá honum. Þessir stóru strákar eru öðruvísi gerðir en þessi meðalmaður. Þetta fór ekkert vel í hann,“ sagði Benedikt að lokum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira