Gagnrýni

Gólandi þunnildi

Tómas Valgeirsson skrifar
Tom Hiddleston nær ekki alveg að finna sig í hlutverki harða naglans.
Tom Hiddleston nær ekki alveg að finna sig í hlutverki harða naglans. NORDICPHOTOS/AFP
Górillan Kong hefur sést í öllum stærðum og gerðum frá því að fígúran steig fyrst fram á sjónarsviðið árið 1933. Seinast spreytti kóngurinn sig á hvíta tjaldinu fyrir tólf árum. Þá var það kvikmyndagerðarmaðurinn Peter Jackson sem færði okkur þriggja klukkustunda epík þar sem teygt var á hágæðalopa með endurgerð sem var helmingi lengri en gamla frummyndin. Hins vegar verður því ekki neitað að hjá Jackson lá mikil umhyggja fyrir efninu og maðurinn gerði sitt besta til að gæða stóra, fokreiða apann miklum persónuleika sem skein í gegnum svakalegt sjónarspil.

Nú er apinn töluvert stærri og mættur í glænýrri endurræsingu, sem er sérstaklega til þess hönnuð að górillan geti einn daginn slegist við Godzilla, „hinn“ skepnukónginn fræga. Leikstjóri myndarinnar, Jordan Vogt-Roberts, passar upp á að flækja hlutina ekkert né fara í öfuga átt við Jackson með því að reyna að halda eins þéttri keyrslu og mögulegt er. Hann er minna gefinn fyrir það að segja sögu og leggur áherslu á hamagang og skepnuhasar, að sjálfsögðu með nýjustu og flottustu tölvubrellurnar að vopni.

Leikstjórinn sendi seinast frá sér þrælfínu „indí-myndina“ The Kings of Summer og markar þetta fyrsta skiptið þar sem hann leikur sér með Hollywood-peninga. Vorges sýnir að hann hefur tök á því að móta ágætan stíl og flottan hamagang en í þessu tilfelli er það lapþunnt og bitlaust handrit sem verður myndinni að falli. Skull Island er laus við alla dulúð, allan óhugnað, alla spennu, allar tilfinningar og leikstjórinn keyrir framvinduna svolítið á sjálfstýringu og vonar að brellurnar sjái um rest.

Skemmst er frá því að segja að Kong: Skull Island er merkilega flott bíómynd, enda sést allur aurinn á skjánum, en hún gerir lítið sem ekkert nýtt, óvænt eða hugmyndaríkt við „skrímslageirann“ svokallaða.

Það vantar alla byggingu og eftir að górillan er kynnt til leiks í öflugu árásar­atriði er fátt sem fylgir í kjölfarið sem trompar það. Til að bæta gráu ofan á svart eru persónurnar alflestar svo óeftirminnilegar og persónuleikasnauðar að áhorfandanum stendur á sama um það hverjir verða að skrímslafóðri og hverjir sleppa.

Vissulega fer enginn á Kong-mynd í leit að sterku innihaldi og hvað þá persónusköpun, en það er þó lágmark að einföldu persónurnar eða stemningin skilji eitthvað eftir sig. Skrímslahönnunin er sæmileg og fer alls ekki á milli mála að górillan sjálf lítur vel út, þótt miklu meira hefði mátt gera við hana – og einhverra hluta vegna virðist Kong breyta um stærð eftir því sem viðkomandi sena krefst af honum. Kunnugleg andlit láta sig þó ekki vanta og leikarar á borð við Samuel L. Jackson, John Goodman, Corey Hawkins og Toby Kebb­ell gera hvað þeir geta við það sem þeir hafa úr að moða. Tom Hiddleston nær ekki alveg að finna sig í hlutverki harða naglans (sem er lauslega mótaður eftir fígúrum í líkingu við Indiana Jones og Nathan Drake) og leiðinlegt að sjá stórgóða leikkonu eins og Brie Larson fá svona lítið að vinna úr.

Bestur er hins vegar húmoristinn John C. Reilly, þar sem hann virðist vera sá eini sem tekur sig ekki vitund alvarlega og gerir sér alveg grein fyrir því hvers konar bíómynd hann er staddur í.

Kong: Skull Island er í eðli sínu tröllvaxin B-mynd sem því miður gengur ekki alveg upp, en hraði hennar og útlit kemur í veg fyrir að hún verði nokkurn tímann of leiðinleg. Aftur á móti, þegar komið er svona mikið offramboð af flottum bíótitlum, stórum og smáum, væri líklega sniðugast að horfa á myndina heima í stofu á Blu-Ray með væntingar í lágmarki. Stundum er fínt að fá aðeins meira með poppinu og gosinu heldur en innantómt sjónarspil, eða apaspil. 



Niðurstaða: Brellurnar standa fyrir sínu en handritið er þunnt og leikararnir geisla ekki af miklum persónuleika frekar en apinn. Kóngurinn Kong hefur séð betri daga á hvíta tjaldinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×