Erlent

Mélanie fékk draum sinn uppfylltan og flutti veðurfréttir í beinni

Atli Ísleifsson skrifar
Aldrei hafa fleiri fylgst með veðurfréttum á France 2.
Aldrei hafa fleiri fylgst með veðurfréttum á France 2.

Hin franska Mélanie Ségard fékk draum sinn uppfylltan á þriðjudagskvöldið þegar hún fékk tækifæri til að flytja veðurfréttir í sjónvarpi.

Hin 21 árs gamla Mélanie stofnaði Facebook-síðuna „Mélanie peut le faire“, eða „Mélanie getur það“, þar sem hún safnaði „lækum“ í þeim tilgangi að vekja athygli og auka þekkingu á Downs-heilkenninu í Frakklandi. Mélanie er sjálf með Downs-heilkenni.

Á síðunni kom fram að „ef ég næ 100 þúsund lækum„ þá „flyt ég veðurfréttir í sjónvarpinu“. Hún var hins vegar fljót að ná yfir 200 þúsund lækum, en franska sjónvarpsstöðin France 2 hafði heitið því að hún fengi að flytja veðurfréttir, tækist henni að ná markmiðinu.

Aldrei fleiri áhorfendur
Á fréttasíðu France Info er haft eftir Mélanie að hún hafi verið „mjög glöð“ þegar hún kom í myndver en „svolítið stressuð“.

Alls fylgdust um 5,3 milljónir áhorfenda með veðurfréttatímanum og hafa þeir aldrei mælst fleiri.

Sjá má myndskeið af Mélanie og veðurfréttatíma hennar að neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira