Erlent

Leiðtogar Evrópuríkja óska Rutte til hamingju

Atli Ísleifsson skrifar
Mark Rutte verður að öllum líkindum áfram forsætisráðherra Hollands.
Mark Rutte verður að öllum líkindum áfram forsætisráðherra Hollands. Vísir/AFP
Stjórnvöld í Þýskalandi og Frakklandi hafa óskað hollenska forsætisráðherranum Mark Rutte til hamingju með kosningasigurinn í hollensku þingkosningunum í gær.

Þegar búið er að telja 95 prósent atkvæða eru Rutte og VVD-flokkur hans með 33 þingsæti af 150. Flokkur Rutte tapar raunar átta þingsætum frá síðustu kosningum, en flokkurinn verður áfram sá stærsti á þingi.

Flokkur popúlistans Geert Wilders verður annar stærsti – hlýtur tuttugu sæti og bætir við sig fimm. Í kosningabaráttunni var lengst af tvísýnt hvor flokkurinn yrði stærstur á þingi að kosningum loknum.

Búist er við að stjórnarmyndunarviðræður gætu tekið nokkurn tíma, en að mið- og hægriflokkar munu nú leitast eftir að mynda stjórn.

Afdráttarlaus sigur

„Forseti lýðveldisins óskar Mark Rutte innilega með afdráttarlausan sigur á öfgastefnunni,“ segir Francois Hollande Frakklandsforseti í yfirlýsingu.

Peter Altmaier, talsmaður Angelu Merkel Þýskalandskanslara, segir að úrslit kosninganna sýni fram á að „trén vaxi ekki alla leið til himins“, sem er þýskt orðatiltæki sem merki að allur árangur eigi sér takmörk. „Lýðræði og skynsemi er sterkara en lýðskrum,“ segir Altmeier á Twitter, þar sem hann óskar Hollendum til hamingju á hollensku.

Evrópa er litrík

Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands, fagnar sömuleiðis niðurstöðunni. „Góðar fréttir frá Hollandi. Evrópa heldur áfram að vera litríkt – og appelsínugulur er hluti af því,“ segir Gabriel á Twitter, en appelsínugulur er einkennislitur Hollands.

Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, óskar sömuleiðis VVD og Rutte til hamingju. „Niðurstöður kosninganna sýnir fram á að hollenska þjóðin hafi kosið gegn popúlismanum og kosið með opnu samfélagi,“ segir Wallström.


Tengdar fréttir

Rutte: Holland hafnaði popúlisma

Forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, fagnaði sigri í nótt þegar ljóst var að flokkur hans, Frelsis- og lýðræðisflokkurinn, fékk flest atkvæði í þingkosningunum í g




Fleiri fréttir

Sjá meira


×