Erlent

Ekki sjálfgefið fyrir Skotland að fá aðgang

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Nicola Sturgeon og Guðlaugur Þór Þórðarsson.
Nicola Sturgeon og Guðlaugur Þór Þórðarsson. Vísir/Getty/Stefán
Það gæti tekið Skotland dágóðan tíma að fá aðgang að innri markaði Evrópusambandins lýsi Skotar yfir sjálfstæði eftir þjóðaratkvæðagreiðslu þess efnis. Fregnir herma að Nicola Sturgeon vilji að Skotar verði meðlimir að EFTA, fremur en Evrópusambandinu, verði ríkið sjálfstætt.

Daily Telegraph í Bretlandi greindi frá því í gær að Sturgeon, ráðherra heimastjórnar Skotlands, myndi leggja niður áætlanir Skoska þjóðarflokksins um að sækja um aðild að Evrópusambandinu fyrir sjálfstætt Skotland og sækjast frekar eftir aðild að EFTA, fríverslunarsamtökum Evrópu.

Guðlaugur Þór Þórðarsson, utanríkisráðherra, segir þó að sjálfstæði Skotlands feli líklega í sér að Skotland myndi vera án aðildar að innri markaði Evrópusambandsins um einhvern tíma þar sem aðeins sjálfstæð og fullvalda ríki geti sótt um aðild að EFTA, samkvæmt reglum samtakanna.

Þetta kemur fram í Daily Telegraph þar sem Guðlaugur Þór segir að þessar reglur flæki málið fyrir Skotland ætli yfirvöld þar sér að sækja um aðild að EFTA eftir að þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði er fram en áður en Skotland yfirgefur Bretland á formlegan hátt.

Hann segir þó að framtíð Skotlands sé eitthvað sem yfirvöld í Skotlandi og Bretlandi þurfi að ákveða sín á milli og að hann vilji ekki eyða miklum tíma í að ræða mögulegar tilgátur um framtíð Skotlands.

Sturgeon tilkynnti í vikunni að hún myndi sækjast eftir heimild skoska þingsins til þess að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands. Slík þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram árið 2014 þar sem Skotar höfnuðu naumlega sjálfstæði.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×