Fótbolti

Karen Nóadóttir hætt vegna meiðsla

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Karen Nóadóttir, fyrirliði Þórs/KA
Karen Nóadóttir, fyrirliði Þórs/KA

Karen Nóadóttir hefur neyðst til að leggja skóna á hilluna, aðeins 27 ára. Þetta tilkynnti hún á Facebook-síðu sinni eins og sjá má neðst í fréttinni.

Karen hefur verið fyrirliði Þórs/KA um árabil og varð Íslandsmeistari með liðinu árið 2012.

Hún segir að í sex ár hafi hún þrjóskast áfram í íþróttinni en að nú sé svo komið að hún verði að hlusta á líkamann. Hún geti ekki meir, líkt og hún segir sjálf.

Síðasti leikur hennar var gegn Breiðabliki um miðjan ágúst í fyrra en eftir leik hneig hún niður. Hún stóð ekki upp aftur fyrr en hún „skjögraði út af sjúkrahúsinu rétt eftir miðnætti,“ skrifaði hún.

Karen hefur lengi glímt við bakmeiðsli og var það bakið sem gaf sig í umræddum leik. Hún segir að síðan þá hafi hún íhugað þessa ákvörðun vel og lengi en ákvað svo að tilkynna liðsfélögum sínum í gær að hún væri hætt.

Karen spilaði allan sinn feril með Þór/KA og hóf að spila í meistaraflokki árið 2006. Á þeim ellefu tímabilum sem hún spilaði lék hún samtals 173 leiki og skoraði í þeim eitt mark.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira