Erlent

Kona særðist eftir að bréfasprengja sprakk á skrifstofu AGS

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla segir að um heimagerða sprengju hafi verið ræða.
Lögregla segir að um heimagerða sprengju hafi verið ræða. Vísir/AFP
Kona særðist eftir að bréfasprengja sprakk á skrifstofu Alþjóðagjaldeysissjóðsins (AGS) í París fyrr í dag. Forstjóri AGS hefur fordæmt árásina.

„Ég fordæmi þetta huglausa ofbeldisverk og ítreka að sjóðurinn er staðráðinn í að halda starfinu áfram í samræmi við umboð okkar,“ segir forstjórinn Christine Lagarde.

Franskir fjölmiðlar segja að starfsmaðurinn sem opnaði bréfið hafi særst í andliti og höndum, en lögregla skipaði í kjölfarið fjölda starfsmanna að yfirgefa bygginguna. Lögregla segir að um heimagerða sprengju hafi verið ræða.

François Hollande Frakklandsforseti segir árásina sýna að „við erum enn skotmark“. Ekki er ljóst hver ber ábyrgð á árásinni.

Grískur vinstri öfgahópur sagðist í gær bera ábyrgð á árásartilraun gegn þýska fjármálaráðuneytinu þar sem upp komst um bréf sem innihélt sprengiefni.

Bréfið barst ráðuneytinu degi áður en Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, tók á móti bandarískum starfsbróður sínum, Steven Mnuchin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×