Viðskipti innlent

H&M auglýsir eftir tískufrömuðum á kassa

Haraldur Guðmundsson skrifar
Til stendur að opna þrjár fataverslanir H&M hér á landi.
Til stendur að opna þrjár fataverslanir H&M hér á landi. Vísir/Getty
Auglýst er eftir söluráðgjöfum í verslanir H&M hér á landi á vefsíðu Capacent í dag. Þar segir að allir starfsmenn sænska fataverslunarrisans þurfi að vera söludrifnir, félagslyndir og jákvæðir tískufrömuðir. Söluráðgjafar þurfi meðal annars að undirbúa útsölur og herferðir, fylgja verklagsreglum H&M, og sinna afgreiðslu á kassa í verslunum fyrirtækisins.

Tvær verslanir H&M eiga að opna hér á landi í haust og ein á næsta ári. Í upphafi árs var auglýst eftir verslunarstjórum, útstillingarfólki og markaðsfulltrúa. Vísir fjallaði í síðasta mánuði um mikinn áhuga á starfi markaðsfulltrúa H&M hér á landi en um 120 manns sóttu um. Umsækjendur um starfið voru síðar látnir vita að forsendur hefðu breyst og að gert sé ráð fyrir að markaðsfulltrúi verði staðsettur í Noregi í eitt ár og vinni þar með markaðsteymi H&M. Voru umsækjendur beðnir um að staðfesta að þeir hefðu enn áhuga á starfinu og vildu þar með halda áfram í umsóknarferlinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×