Erlent

McDonalds tísti ókvæðisorðum að Trump

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump er mjög hrifinn af McDonalds.
Donald Trump er mjög hrifinn af McDonalds. Vísir/Getty

Skyndibitakeðjan McDonalds rannsakar nú hvernig stóð á því að ókvæðisorðum var tíst að Donald Trump, forseta Bandaríkjanna fyrr í dag. Svo virðist sem að einhver hafi náð að hakka sig inn á Twitter-reikning McDonalds.

Í tístinu, sem sjá má hér að neðan, sagði að Donald Trump væri viðurstyggileg afsökun af forseta og að McDonalds vildi endilega sjá Barack Obama í starfi á nýjan leik. Einnig, að Trump væri með litlar hendur.

Tístið komst á flug í netheimum áður en því var skilmerkileg eytt af starfsmönnum McDonalds. Í tísti frá McDonalds segir að fyrirtækið hafi fengið tilkynningu frá Twitter um að Twitter-reikningur fyrirtækisins hafi verið hakkaður.

Trump, sem er mikill aðdáandi skyndibita, hefur áður sagt að McDonalds sé einn af uppáhaldsveitingastöðum hans. Fagnaði hann meðal annars sigri í forkosningum Repúblikana á síðasta ári með því að gæða sér á hamborgara og frönskum frá McDonalds.
Fleiri fréttir

Sjá meira