Körfubolti

Sá litli nálgast risana Michael Jordan og Kobe Bryant

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Isaiah Thomas.
Isaiah Thomas. Vísir/Getty

Isaiah Thomas hefur farið á kostum með liði Boston Celtics í NBA-deildinni á þessu tímabili og svo vel að hann nálgast nú tvo af mestu og stöðugust skorurum deildarinnar í gegnum tíðina.

Isaiah Thomas hefur skorað 30,8 stig að meðaltali með Boston Celtics liðinu og er á góðri leið með að bæta met Larry Bird yfir flest stig að meðaltali hjá Boston Celtics á einu tímabili. Enginn leikmaður Boston hefur verið með yfir 30 stig að meðaltali í leik.

Það er þó önnur tölfræði sem hefur komið Isaiah Thomas í hóp með stöðugustu skorunum sem NBA-deildin hefur séð síðan NBA og ABA deildirnar sameinuðust á áttunda áratugnum.

Isaiah Thomas var stigahæstur í 117-104 sigri Boston á Minnesota Timberwolves í nótt en hann skoraði þá 27 stig eða sjö stigum meira en næsti maður.

Þetta var 32. leikurinn í röð sem Isaiah Thomas er stigahæstur hjá Boston-liðinu og aðeins  Michael Jordan og Kobe Bryant hafa verið stigahæstir hjá sínu liði í fleiri leikjum í röð.

Isaiah Thomas er stutt frá því að ná að komast yfir Kobe Bryant og inn á topp tvö listann með sjálfum Michael Jordan. Jordan er reyndar í í nokkrum sér flokki enda með tvo spretti í efstu tveimur sætunum.

Jordan var stigahæstur hjá Chicago Bulls í 66 leikjum í röð 1987-88 tímabilið og í 41 leik í röð tímabilið á undan.

Isaiah Thomas þarf að vera stigahæstur í tveimur leikjum í röð til að jafna Kobe Bryant í þriðja sætinu.  Bryant var stigahæstur í 34 leikjum í röð hjá Los Angeles Lakers tímabilið 2005-06.

Það var margt á móti Isaiah Thomas, hann er aðeins 175 sentímetrar á hæð og var valinn sextugasti í nýliðavalinu 2011. Síðan hefur hann unnið sig upp í að vera einn af bestu leikmönnum deildarinnar.

Lykilatriðið var að komast til Boston Celtics en þar hefur strákurinn sprungið út og er nú á góðri leið með að slá stigamet Larry Bird. Hann hefur þegar tekið önnur met hjá félaginu og þetta tímabil hjá Isaiah Thomas því löngu orðið sögulegt í Boston Garden.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira