Skoðun
Guðmundur Ingi Kristinsson,
varaformaður málefnahóps ÖBÍ um kjaramál.

Skattar og keðjuverkandi skerðingar

Guðmundur Ingi Kristinsson skrifar

Ríkisstjórnir undanfarinna ára þykjast ekki hafa hækkað skatta á lífeyrislaun, heldur lækkað þá. En það að hækka ekki persónuafsláttinn í um 103.000 krónur, eins og hann ætti að vera í dag uppreiknaður frá 1988, heldur halda honum í 52.907 krónum á mánuði er ekkert annað en fáránleg hækkun skatta, sem lenda verst á eldri borgurum, veiku og slösuðu fólki og láglaunafólki. Hvað á að kalla svona skattahækkanir? Ekkert annað en fátæktarskatt, sem svo leiðir til sárafátæktar og er ráðherrum og þingmönnum til háborinnar skammar.

Lífeyrislaun, persónuafsláttur, vaxta- og barnabætur hækka miðað við verðlag, ekki launavísitölu og veldur því að skattbyrði lífeyrislaunþega hækkar. Í þessum anda eru bótaflokkar sem valda keðjuverkandi skerðingum um allt kerfið, vegna þess að skerðingarmörk tekna hækka ekki þó lífeyririnn og bótaflokkarnir hækki. Skattalækkanir eru bara fyrir eignafólk, hátekjufólk og fyrirtæki.

Til hvers er þetta ómannúðlega „keðjuverkandi skattkerfi“ sem setur þá verst settu í sárafátækt eða um 10 þúsund manns og yfir 30 þúsund í eða við fátæktarmörk? Eru þetta mannleg mistök? Flókið kerfi sem enginn þekkir nema tölvan sem forritaði sig sjálf til að segja „Nei“? Eða er þetta bara úthugsað kerfi til að berja og sparka fjárhagslega í þá sem verst eru settir á Íslandi? Já, ég er kominn á þá skoðun.

Frítekjumark lækkaði um 84 þúsund krónur í breyttu lífeyriskerfi hjá ellilífeyrisþegum. Hækkun á framfærsluuppbót, sem skerðist krónu á móti krónu er ekkert annað en ólöglegur 100% skattur. Fjölmargir styrkir, t.d. frá verkalýðsfélögum, fyrir lyfjum, lækniskostnaði og rekstri bifreiðar, valda bara keðjuverkandi skerðingum á lífeyrislaunum frá Tryggingastofnun, húsnæðisbótum, barnabótum og öllum öðrum bótaflokkum.

Hvað er ríkið að borga í lífeyrislaun á Íslandi? Erum við sem erum á lífeyrislaunum að borga fyrir allt með sköttum og keðjuverkandi skerðingarsköttum? Svarið er „JÁ“.

Fjallað verður um skerðingarkerfið á opnum fundi málefnahóps Öryrkjabandalags Íslands um kjaramál á Grand hóteli laugardaginn 18. mars kl. 13. Þar verður einnig gerð grein fyrir þeirri staðreynd að 1.300 manns eru á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þá verður rýnt í þróun persónuafsláttar frá upphafi staðgreiðslu og rætt um nýtt fyrirkomulag húsnæðisstuðnings til leigjenda sem tók gildi um síðustu áramót.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira