Erlent

Öldungaþingmenn finna engar sannanir um hleranir gegn Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/EPA

Leyniþjónustumálanefnd öldungadeildar þings Bandaríkjanna fann engar sannanir fyrir því að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefði verið hleraður. Hann hefur haldið því fram að Barack Obama, forveri hans, hafi fyrirskipað hleranir á símum í Trump-turni fyrir forsetakosningarnar í janúar.

Leiðtogar þingnefndarinnar segja að samkvæmt þeirra upplýsingum hafi enginn armur stjórnkerfis Bandaríkjanna beitt nokkurs konar eftirliti gagnvart turninum, hvorki fyrir né eftir kosningarnar.

Njósnamálanefnd neðri deildar þingsins komst að sömu niðurstöðu í gær.

Fyrir skömmu tísti Trump um að hann hefði komist að því að Obama hefði látið hlera símana í Trump-turni og kallaði hann Obama „vondan (eða veikan) gaur“.

Sjá einnig: Samsæriskenning rataði úr útvarpi á Twitter-síðu forsetans

Þá lýsti Trump því yfir í viðtali í gær að hann stæði við ásakanir sínar og boðaði að „athyglisverðar upplýsingar“ kæmu fram á næstu vikum.

Obama hefur staðfastlega neitað því að hafa fyrirskipað slíkar hleranir. Þá hefur James Clapper, sem gegndi embætti yfirmanns njósnamála á þeim tíma sem hleranirnar eiga að hafa farið fram, sagt að hann hafi ekki fengið neinar upplýsingar um slíka hlerun.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira