Enski boltinn

Gömlu Liverpool-strákarnir á skotskónum í Evrópudeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Babel fagnar öðru marka sinna í kvöld.
Ryan Babel fagnar öðru marka sinna í kvöld. Vísir/EPA

Spænska liðið Celta de Vigo, tyrkneska félagið Besiktas og belgísa félagið Genk urðu í kvöld þrjú fyrstu liðin til að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Gömlu Liverpool-mennirnir Ryan Babel og Iago Aspas voru báðir á skotskónum í kvöld, Babel skoraði tvö, Aspas eitt og þeir verða báðir með liðum sínum í átta liða úrslitunum.

Celta de Vigo vann 2-0 útisigur á Krasnodar í Rússlandi og þar með samanlagt 4-1. Krasnodar endaði leikinn tíu á móti ellefu eftir að Charles Kaboré fékk rautt spjald á 86. mínútu.

Iago Aspas innsiglaði sigur Celta með öðru markinu tíu mínútum fyrir leikslok en það munaði miklu um það þegar Hugo Mallo kom Celta yfir í leiknum í byrjun seinni hálfleiksins.

Ryan Babel skoraði tvö mörk fyrir Besiktas sem vann 4-1 heimasigur á gríska liðinu Olympiakos og þar með 5-2 samanlagt. Babel skoraði annað og þriðja markið en Besiktas komst í 2-0 í leiknum

Genk var í mjög fínum málum á móti löndum sínum í Gent eftir 5-2 sigur á útivelli í fyrri leiknum. Eftir að Genk komst í 1-0 voru úrslitin endanlega ráðin. Leikmenn Gent náði samt að jafna metin í lokin.

Hinir fimm leikirnir í sextán liða úrslitum hefjast allir klukkan 20.05 og þá kemur í ljós hvaða fimm lið bætast í hópinn með Celta de Vigo, Besiktas og Genk.


Úrslitin í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar:

Krasnodar - Celta 0-2 (samanlagt: 1-4)
0-1 Hugo Mallo (52.), 0-2 Iago Aspas (80.)

Besiktas - Olympiakos 4-1 (samanlagt: 5-2)
1-0 Vincent Aboubakar (10.), 2-0 Ryan Babel (22.), 2-1 Tarik Elyounoussi (31.), 3-1 Ryan Babel (75.), 4-1 Cenk Tosun (84.)

Genk - Gent 1-1 (samanlagt: 6-3)
1-0 Timothy Castagne (20.), 1-1 Louis Verstraete (84.)Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira