Erlent

Forsetinn boðar stórfelldan niðurskurð á flestum sviðum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur kynnt fyrsta fjárlagafrumvarp sitt, með stórfelldum niðurskurði á ríkisstofnunum.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur kynnt fyrsta fjárlagafrumvarp sitt, með stórfelldum niðurskurði á ríkisstofnunum. vísir/epa
Donald Trump Bandaríkjaforseti lagði fram fyrsta fjárlagafrumvarp sitt í gær. Þar er boðaður stórfelldur niðurskurður, sem þó er engan veginn víst að Bandaríkjaþing muni fallast á í óbreyttri mynd.

Repúblikanar, flokksfélagar Trumps, yrðu vafalaust tregir til að fallast á sumar hugmyndirnar og demókratar láta sér vart detta það í hug.

Mesta athygli vekur að umhverfisstofnun Bandaríkjanna á að skera niður um 31 prósent. Þá missir utanríkisráðuneytið 29 prósent, landbúnaðarráðuneytið 21 prósent, vinnumálaráðuneytið sömuleiðis 21 prósent og dómsmálaráðuneytið 20 prósent.

Einnig verður skorið hressilega niður fjármagn til heilbrigðismála, viðskipta, menntamála, samgöngumála og húsnæðismála.

Þá verður algerlega hætt að veita fé í ýmsar smærri stofnanir, þar á meðal stofnanir sem hafa gegnt mikilvægu hlutverki við að styrkja menningu og listir af ýmsu tagi. Framlög til þessara stofnana hafa samt verið sáralítil í hlutfalli við heildarútgjöld ríkisins.

Hins vegar á að auka framlög til varnarmálaráðuneytisins um 10 prósent og heimavarnarráðuneytið fær sjö prósenta aukningu.

Og landamæragirðingin, sem á að reisa milli Mexíkó og Bandaríkjanna, er komin á blað í þessu fjárlagafrumvarpi. Til hennar á að verja 2,6 milljörðum dala, en það samsvarar nærri 2.900 milljörðum króna.

Auk þess er ætlunin að ráða 1.700 manns til að sinna landamæragæslu, saksóknarastörfum og dómarastörfum í tengslum við baráttu Trumps gegn ólöglegum – eða skilríkjalausum – innflytjendum.

Þá er hugmyndin að verja 171 milljón dala til að fjölga plássum til skammtímavistunar í fangelsum. Þar á að hýsa ólöglega innflytjendur, sem hafa framið afbrot, á meðan réttarhalda og dómsuppkvaðningar er beðið.

Afar skiptar skoðanir eru meðal Repúblikana á þingi um ágæti þessara tillagna. Flokkurinn er jafnvel sagður skiptast í þrjár meginfylkingar hvað þetta varðar.

Öldungadeildarþingmaðurinn Lindsey Graham og fylgismenn hans eru til að mynda lítt hrifnir af því að skera niður framlög til Sameinuðu þjóðanna. Paul Ryan, þingforseti fulltrúadeildar, leggur mesta áherslu á breytingar á heilbrigðistryggingum En John McCain vill reyndar ganga enn lengra en Trump við uppbyggingu hersins. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×