Körfubolti

Jóhann: Ánægður með kraftinn í mínum mönnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jóhann var sáttur með leik Grindvíkinga í sigrinum gegn Þór í kvöld.
Jóhann var sáttur með leik Grindvíkinga í sigrinum gegn Þór í kvöld. vísir/anton
Jóhann Ólafsson þjálfari Grindavíkur var mjög sáttur með frammistöðu sinna manna í sigrinum á Þór frá Þorlákshöfn í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Dominos-deildar í kvöld. Grindavík er því komið 1-0 yfir í einvíginu.

„Ég er mjög ánægður og auðvitað með sigurinn númer 1, 2 og 3, það er það sem þetta snýst um. Frammistaðan heilt yfir var mjög góð,“ sagði Jóhann í samtali við Vísi eftir leik.

Grindvíkingar fengu gott framlag frá Þorleifi Ólafssyni og Ómari Erni Sævarssyni sem voru frábærir í fyrri hálfleiknum.

„Það voru allir að leggja í púkkið og þeir áttu góða spretti sem og aðrir. Heildin var mjög góð.“

Grindvíkingar spiluðu grimma vörn á Tobin Carberry sem hefur verið frábær fyrir Þór í vetur. Hann skoraði reyndar 26 stig en fékk sjaldan auðvelt skot og fékk að finna fyrir því hjá heimamönnum.

„Hann er rosalega góður og við reynum að þvinga hann í erfið skot og að hann haldi boltanum í höndunum. Við vorum varnarlega ekki alveg eins og við vildum og það er eitt og annað sem við getum lagð fyrir næsta leik,“ bætti Jóhann við.

Grindvíkingar hafa verið mikið Jójó-lið í vetur og í kvöld komu þeir af miklum krafti inn í leikinn sem þeir náðu að halda að mestu út leikinn.

„Sigur og ekki sigur, ég er mjög ánæður með kraftinn í mínum mönnum og hvernig við vorum einbeittir í því sem við vorum að gera. Við vinnum frákastabaráttuna með einhverjum 20 fráköstum og settum tóninn strax.“

Jóhann sagði í viðtali fyrir skömmu að hann væri til í að sjá hans menn fylgja leikskipulagi heilan leik og blaðamanni lék forvitni á að vita hvort það hefði gengið upp í kvöld.

„Já og nei,“ sagði Jóhann glottandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×