Íslenski boltinn

Þórir með þrennu í seinni hálfleik | Sigrar hjá Fjölni og Stjörnunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Guðjónsson.
Þórir Guðjónsson. Vísir/Pjetur

Þórir Guðjónsson skoraði þrennu í kvöld þegar Fjölnir vann 5-2 sigur á Leikni R. í Lengjubikar karla í knattspyrnu. Stjarnan vann 2-1 sigur á Fram.

Þetta var fyrsti sigur Fjölnismanna í Lengjubikarnum í sumar en liðið var búið að tapa þremur fyrstu leikjum sínum.

Brynjar Hlöðversson kom Leikni í 1-0 í byrjun leiks en Marcus Solberg kom Fjölni yfir með tveimur mörkum fyrir hálfleik.

Þórir Guðjónsson skoraði síðan þrennu í seinni hálfleiknum og gulltryggði sigurinn. Elvar Páll Sigurðsson  náði reyndar að minnka muninn í 4-2 áður en Þórir fullkomnaði þrennuna.

Stjörnumenn unnu 2-1 sigur á Fram og eru eftir sigurinn á toppi fjórða riðils A-deildarinnar með 10 stig í fjórum leikjum.

Kristófer Konráðsson kom Stjörnunni í 1-0 á 61. mínútu en Ivan Bubalo jafnaði fyrir Fram á 73. mínútu með marki úr vítaspyrnu. Hörður Árnason skoraði sigurmark Stjörnunnar sjö mínútum fyrir leikslok.

Framarar hafa tapað öllum þremur leikjum sínum í Lengjubikarnum í sumar og eru stigalausir ásamt Leikni F.

Upplýsingar um markaskorara fengnar af Fótbolta.net



Fleiri fréttir

Sjá meira