Enski boltinn

Koeman: Lukaku verður að virða samninginn sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Koeman vill að sjálfsögðu halda Lukaku hjá Everton.
Koeman vill að sjálfsögðu halda Lukaku hjá Everton. vísir/getty
Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton, segir að belgíski framherjinn Romelu Lukaku verði að virða samning sinn við félagið.

Lukaku, sem er annar af tveimur markahæstu leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar í vetur, greindi frá því á þriðjudaginn að hann ætlaði ekki að skrifa undir nýja samninginn sem honum var boðið hjá Everton. Samningurinn hefði fært honum 140.000 pund í vikulaun næstu fimm árin.

Lukaku vill spila í Meistaradeild Evrópu og segist óviss hvort Everton deili þeim metnaði með honum.

„Allir vita að allt getur gerst í fótbolta en þú verður að virða samninginn þinn,“ sagði Koeman en Lukaku á tvö ár eftir af núgildandi samningi sínum við Everton.

„Að sjálfsögðu er ég ekki ánægður með þetta viðtal. Ef Everton væri ekki metnaðarfullt félag væri ég ekki stjóri þess.“

Þrátt fyrir stöðuna sem upp er komin segist Koeman að mestu vera ánægður með Lukaku sem er orðinn markahæsti leikmaður Everton í ensku úrvalsdeildinni frá upphafi.

„Það eru engin vandamál. Hann æfir vel og fyrir utan umrætt viðtal er framkoma hans til fyrirmyndar. Það er engin ástæða til að taka hann úr liðinu. Við þurfum hann og hann þarf á liðinu að halda til að skora mörk,“ sagði Koeman.

Everton tekur á móti Hull City á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×