Erlent

Merkel hlakkar til fundarins með Trump í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel Þýskalandskanslari.
Angela Merkel Þýskalandskanslari. Vísir/AFP

Angela Merkel Þýskalandskanslari segist hlakka til að hitta Donald Trump Bandaríkjaforseta í Washington í dag.

„Það er alltaf betra að tala saman en að tala um hvort annað,“ segir kanslarinn í samtali við Saarbrücker Zeitung.

Fundur þeirra var upphaflega fyrirhugaður á þriðjudag en fresta varð fundinum vegna hríðarbylsins sem gekk yfir norðausturströnd Bandaríkjanna og lamaði flugsamgöngur. Merkel var á leið út á flugvöll á mánudag þegar Trump hringdi og sagði nauðsynlegt að fresta fundinum vegna veðurs.

Öryggis- og efnahagsmál
Í samtali sínu við Saarbrücker Zeitung segir Merkel að hún vilji fyrst og fremst ræða öryggis- og efnahagsmál við nýjan forseta Bandaríkjanna og alþjóðlega samvinnu.

„Ríki okkar græða á því að vinna saman á góðan og réttlátan máta,“ sagði Merkel aðspurð um möguleikann á viðskiptastríði Bandaríkjanna og Evrópu.

Þetta verður fyrsti fundur Trump og Merkel frá því að Trump tók við embætti forseta í janúar, en þau hafa þó rætt saman í síma. Samband Merkel og forvera Trump í embætti, Barack Obama, var mjög gott og er því fundar hennar og Trump því beðið með nokkurri eftirvæntingu, sér í lagi þar sem Merkel hefur áður gagnrýnt Trump, orðfæri hans og stefnu.

Ólíka sýn
Vitað er að þau Merkel og Trump hafa ólíka sýn á flóttamannamál og fríverslun og hefur Trump sakað Merkel um að „eyðileggja Þýskaland“ með því að taka á móti rúmlega milljón flóttamönnum og hælisleitendum. Þá hefur Merkel harðlega gagnrýnt ferðabann Trump.

Með Merkel í för eru meðal annars forstjórar bílarisans BMW og rafrækjarisans Siemens.

Hefur lesið viðtal við Trump í Playboy
Í frétt DR kemur fram að orðið á götunni sé að Merkel hafi verið mörgum tímum í að undirbúa sig fyrir fund sinn með Trump. Hafi hún þannig lesið í gegnum margar af mikilvægustu ræðum hans, lesið bók hans „The Art of the Deal“ og „Great Again: How to Fix Our Crippled America“. Þá hefur hún lesið viðtöl við hann alveg aftur til ársins 1990 þegar hann birtist á forsíðu karlatímaritsins Playboy.

Merkel mun svo sækja Rússland heim í maí og funda þá með Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Það verður fyrsta heimsókn hennar til Rússlands í um tvö ár.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira