Fótbolti

Owen: Liverpool vann Evrópudeildina í fyrra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sevilla vann Evrópudeildina 2014-16.
Sevilla vann Evrópudeildina 2014-16. vísir/getty

Minnið var eitthvað að stríða Michael Owen, fyrrum leikmanni Liverpool, Manchester United og Real Madrid, í gær.

Owen var álitsgjafi hjá BT Sport um seinni leik United og Rostov í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í gær.

Owen varð á í messunni. vísir/getty

„Það er erfitt að vinna þessa keppni,“ sagði Owen.

„Liverpool þurfti að spila á móti gríðarlega sterkum liðum á leiðinni að titlinum í fyrra,“ bætti Owen við.

Svo virðist sem gamli framherjinn hafi gleymt seinni hálfleiknum í úrslitaleik Liverpool og Sevilla í fyrra.

Liverpool leiddi 1-0 í hálfleik í úrslitaleiknum í Basel í fyrra. Sevilla-menn voru hins vegar mun sterkari aðilinn í seinni hálfleik, skoruðu þrjú mörk og tryggðu sér sigur í Evrópudeildinni þriðja árið í röð.

Það virðist þó hafa fennt yfir þennan seinni hálfleik í huga Owens sem skoraði 158 mörk í 297 leikjum fyrir Liverpool á árunum 1997-2004.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira