Erlent

Bakarar handteknir í Venesúela út af ólöglegum súkkulaðikökum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bakararnir höfðu meðal annars bakað brownies með útrunnu hveiti.
Bakararnir höfðu meðal annars bakað brownies með útrunnu hveiti. vísir/getty

Fjórir bakarar voru handteknir í Venesúela á dögunum út af ólöglegum súkkulaðikökum (e. brownies) sem þeir bökuðu en ríkisstjórn Nicolás Maduro, forseta landsins, hefur hótað því að taka yfir bakaríin í landinu í því sem kallað hefur verið „brauðstríð.“

Maduro hefur sent eftirlitsmenn og hermenn inn í meira en 700 bakarí víðs vegar um landið til þar sem reglur í landinu kveða á um það að 90 prósent af öllu hveiti skal notað í brauð en ekki kökur og annað sætmeti. Er þetta liður í aðgerðum stjórnvalda að sporna við vöruskorti og löngum röðum sem myndast hafa þar sem almenningur bíður eftir því að geta keypt nauðsynjavörur.

Ríkisstjórn Maduro heldur því fram að fyrirtæki sem séu andsnúin ríkjandi valdhöfum vinni gegn efnahag landsins með því að hamstra vörur og hækka vöruverð.

Gagnrýnendur ríkisstjórnarinnar segja hins vegar að ríkisstjórninni hafi mistekist hrapallega við efnahagsstjórn landsins og bakarar kenna til að mynda stjórnvöldum um mikinn skort á hveiti sem er viðvarandi í Venesúela.

Tveir bakarar voru sem sagt handteknir í vikunni fyrir að nota of mikið hveiti í sætmeti á borð við frönsk horn og annað og aðrir tveir voru svo handteknir fyrir að búa til súkkulaðikökur með hveiti sem var reyndar útrunnið.
 
„Þeir sem standa fyrir brauðstríðinu munu borga og það þýðir ekki fyrir þá að segja að þetta séu pólitískar ofsóknir,“ sagði Maduro í vikunni áður en bakararnir höfðu verið handteknir.


Tengdar fréttir

Venesúelabúar gefa börn vegna ástandsins

Gríðarleg ringulreið ríkir nú í Venesúela vegna seðlaskorts en ákveðið hefur verið að taka algengasta seðil landsins úr umferð. Verðbólga hefur aukist um 500 prósent á undanförnum misserum og eru fjölskyldur farnar að gefa börn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira