Veiði

Að elda gæs í 8 tíma er góð skemmtun

Karl Lúðvíksson skrifar
Svona leit gæsin út kl 13:00 eftir um það bil 5 tíma eldun.
Svona leit gæsin út kl 13:00 eftir um það bil 5 tíma eldun. Mynd: KL

Nú var andaveiðitímabilinu að ljúka og eflaust eiga margar skytturnar eitthvað af önd og gæs síðan í haust í kistunni og þá er ráð á að nýta þetta frábæra kjöt.

Þegar maður rótar í frystikistunni og hugsar um nýjar aðferðir við að elda hitt og þetta sem leynist í kistunni koma oft ótrúlegar hugmyndir upp í hugann.  Það var nákvæmlega það sem ég upplifði fyrir fimm dögum þegar eiginkonan sendi mig niður til að taka eitthvað upp úr kistunni fyrir vikuna.  Eftir smá rót tók ég lax (það eru fjórir eftir), hakk og síðan eina grágæs og poka af gæsaleggjum.  Þegar ég fann gæsina hugsaði ég með mér að ég nennti ekki einhverjum fylltum fugli til hátiðarbrigða, mig langar að prófa eitthvað annað.

Þá fékk ég þá snilldarhugmynd að prófa að gera "confit-langeldað-gæsa-eitthvað", jafnvel eitthvað sem færi nálægt því að vera eins og pulled pork.  Eftir smá rannsóknarvinnu á Google þá var fullt af uppskriftum undir leitinni "pulled goose" og svo margar aðferðir við kryddun að ég fékk bara smá valkvíða.  Ég ákvað að fylgja upskriftinni hvað varðar eldunartíma, 7-8 tímar á blæstri í lokuðu fati á 160 C, en gera bara tilraun í kryddun en ég hallaðist þó að því að blanda saman aðferðum sem ég hef notað við að elda lamb og svínakjöt í langan tíma og í raun svo langan tíma að þegar maður hristi t.d. lambalærið þá datt kjötið hreinlega af beininu en mikið rosalega er svona langeldaður matur góður.

Alla vega, gæsin var sett í fatið og krydduð með salti, pipar, einiberjum, kardimommum, slatta af fersku rósmarín og svo var bjór, soði og Worchestersósu hellt í fatið þannig að það náði um það bil 7-8 sm upp á fuglinn.  Gæsalærunum úr pokanum raðaði ég svo bara í kringum fuglinn og inní ofninn fer svo allt saman.  Í þessum skrifuðu orðum er þetta búið að eldast í um það bil 5 tíma og við fyrstu smökkun er þetta svo ljúffengt, meyrt og gott að ég hlakka mikið til að borða þetta í kvöldmat.  Ef aftur á móti þetta klikkar eitthvað á síðustu metrunum þá læt ég ykkur vita með nýrri grein á morgun og þá verður fyrirsögnin líklega "langtímaeldun sem klikkaði í drasl".

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira