Enski boltinn

West Brom skellti Arsenal | Sjáðu mörkin

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar

West Brom lagði Arsenal 3-1 á heimvelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Staðan í hálfleik var 1-1.

West Brom sem hafði aðeins unnið ein af 13 síðustu leikjum sínum gegn Arsenal komst yfir strax á 12. mínútu þegar Craig Dawson skallaði hornspyrnu Nacer Chadli í netið.

Það kom þó fáum á óvart þegar Alexis Sánchez jafnaði metin aðeins þremur mínútum síðar eftir sendingu Granit Xhaka. Arsenal mistókst síðast að skora gegn West Brom í nóvember 1985.

Hal Robson-Kanu kom West Brom yfir á ný á tíundu mínútu seinni hálfleiks með fyrstu snertingu sinni í leiknum eftir að hafa komið inn á sem varamaður mínútu áður. Framherjinn skaut boltanum undir samherja sinn James McClean sem var rangstæður en ekkert dæmt því hann hafi ekki bein áhrif á skotið.

Arsenal-menn voru allt annað en sáttir við að markið fengi að standa en Neil Swarbrick dómari leiksins var viss í sinni sök eftir að hafa ráðfært sig við aðstoðardómara sinn.

Dawson tryggði West Brom sigurinn með öðru skallamarki sínu eftir horn þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum.

Sanngjarn sigur West Brom sem er með 43 stig í 8. sæti. Arsenal er í 5. sæti með 50 stig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira