Lífið

Skrælingjaleikarnir

Stefán Pálsson skrifar
Mannfræðisýningar voru keimlíkar furðufyrirbærasýningum þeim sem lengi höfðu tíðkast í vestrænum fjölleikahúsum og minntu í raun á mennskan dýragarð.
Mannfræðisýningar voru keimlíkar furðufyrirbærasýningum þeim sem lengi höfðu tíðkast í vestrænum fjölleikahúsum og minntu í raun á mennskan dýragarð.

Frakkar sendu árið 1802 herlið til Haítí til að berja niður í eitt skipti fyrir öll þrælauppreisn sem þar hafði staðið nánast samfleytt í áratug. Herförin varð misheppnuð. Sjúkdómar, einkum gulusótt, hjuggu stór skörð í hersveitirnar og þótt frönsku herforingjarnir litu niður á þeldökka stjórnendur óvinanna, reyndust heimamennirnir slyngari og gerðu innrásarhernum ýmsar skráveifur.
Ógöngur franska herliðsins á Haítí reyndust afdrifaríkar fyrir þróun heimsmála. Þær urðu þeim mikill álitshnekkir og drógu úr trú umheimsins og Frakka sjálfra á að þeir hefðu bolmagn til að verja lönd og áhrifasvæði sín í Vesturheimi. Napóleon, sem mátti heita einráður í Frakklandi um þessar mundir, komst að sömu niðurstöðu og ákvað að gefa upp á bátinn alla stórveldisdrauma í Norður-Ameríku, en einbeita sér þess í stað að yfirvofandi átökum í Evrópu.

Í ljósi þessarar nýju stefnu gengu ríkisstjórnir Frakklands og Bandaríkjanna til samninga árið 1803, þar sem stjórnin í Washington festi kaup á Louisiana. Um var að ræða gríðarstórt landsvæði sem náði allt frá núverandi landamærum Kanada suður til New Orleans við Mexíkóflóa og má því ekki rugla saman við samnefnt ríki í Bandaríkjunum í dag.

Kaupin vöktu hörð viðbrögð margra Bandaríkjamanna, sem margir sökuðu forsetann um að taka sér völd og bentu á að stjórnarskráin veitti enga heimild til slíkrar útþenslustefnu. Þá voru ýmsir ósáttir við að Bandaríkin legðu Frökkum lið gegn Bretum með svo beinum hætti, en hagnaðurinn af sölu landsins rann beint í stríðsundirbúning.
Með tímanum fékk kaupsamningurinn góð eftirmæli og er talinn hafa skipt sköpum fyrir útþenslu hins unga ríkis vestur á bóginn. Þegar leið að aldarafmæli Louisiana-samkomulagsins vildu íbúar hinna ört vaxandi svæða vestan Mississ­ippi-árinnar minnast þess með veglegum hætti. Því var ákveðið að efna til heimssýningar í borginni St. Louis í Missouri.

Deigla heimsins
„Louisiana Purchase Exposition“ eða heimssýningin í St. Louis var opnuð fyrir gestum þann 30. apríl árið 1904 og stóð í hálft ár. Enn í dag eru heimssýningar haldnar sem vekja athygli víða um lönd, en þær komast þó ekki í hálfkvisti við það sem tíðkaðist á gullöld slíkra samkoma á ofanverðri nítjándu öld og framan af þeirri tuttugustu.

Heimsýningar þessar voru oftar en ekki haldnar í minningu stórviðburða í sögu gestgjafalandanna. Stjórnir viðkomandi ríkja veittu þá drjúgar fjárhæðir til að gera sýningarnar sem veglegastar, auk þess sem borgarstjórnir litu á þær sem auglýsingu og tilefni til stórfelldrar innviðauppbyggingar. Heimssýningarnar gegndu því svipuðu hlutverki og Ólympíuleikar eða stórmót í knattspyrnu gera í dag.

Öll helstu fyrirtæki heims vildu láta ljós sitt skína á heimssýningunum, enda var vörusýningarhlutinn einna mikilvægasti þáttur þeirra. Þar voru veitt verðlaun í hinum ýmsu flokkum og þótti mikil upphefð fyrir framleiðendur að geta bætt viðurkenningum frá heimssýningum á umbúðir varnings síns. Uppfinningamenn kepptust við að sýna snilli sína á heimssýningunum, enda var áherslan á tækni og framfarir yfirleitt mikil í dagskránni.

Þótt uppfinningarnar væru sjaldnast búnar til sérstaklega með sýningar þessar í huga voru þær vettvangur til að kynna þær fyrir heiminum. Þannig vakti röntgentæknin fyrst heimsathygli á St. Louis-sýningunni. Á sviði rafmagnsfræðinnar gat sömuleiðis margt að líta, þannig útbjó vesturíslenski hugvitsmaðurinn Hjörtur Þórðarson fyrsta milljón volta spenninn í heiminum og sýndi þar.

Jafnvel matargerðarlistin varð ekki ósnortin. Þannig munu skyndiréttirnir hamborgari, pylsa og ís í brauðformi allir hafa slegið fyrst í gegn í St. Louis og þaðan breiðst út um Bandaríkin. Rétt er þó að taka öllum slíkum upprunaskýringum með nokkrum fyrirvara.
Sýningarsvæðið var ógnarstórt og vitaskuld þurftu gestirnir að hafa fleira fyrir stafni en að dást að varningi og tækninýjungum. Boðið var upp á ókjörin öll af listviðburðum og skemmtunum. Þriðju nútímaólympíuleikarnir og þeir fyrstu sem haldnir voru í Ameríku, fóru fram í tengslum við sýninguna, eins og áður hefur verið rakið á þessum vettvangi. Líkt og fjórum árum fyrr, þegar Ólympíuleikarnir voru haldnir í París í tengslum við stóra vörusýningu, vildu íþróttirnar drukkna í öllum hamaganginum. Enn í dag þrefa íþróttasagnfræðingar um hvaða íþróttaviðburði eigi að telja til formlegra Ólympíukeppna frá þessum óreiðukenndu sumardögum í St. Louis.

Manneskjur til sýnis
Líklega voru fæstir þeirra sem mættu á heimssýninguna mikið að hugsa um íþróttaúrslit, en öðru máli gegndi um allar mannfræðisýningarnar sem drógu til sín torfur áhorfenda. Mannfræðisýningar voru keimlíkar furðufyrirbærasýningum þeim sem lengi höfðu tíðkast í vestrænum fjölleikahúsum og minntu í raun á mennskan dýragarð. Þannig gátu gestir gegn vægu gjaldi fengið að berja augum sjálfan Geronimo, indíánahöfðingjann fræga, sem sat fjörgamall og hreyfingarlítill á stól til sýnis.

Aðstandendur mannfræðisýninganna í St. Louis höfnuðu því þó alfarið að þær ættu neitt sameiginlegt með ómerkilegum fjölleikahúsum. Þvert á móti væri um hávísindalegt verkefni að ræða sem unnið væri í samvinnu við fræðimenn og háskólastofnanir.

Um og fyrir aldamótin 1900 höfðu Bandaríkin unnið mikla hernaðarsigra á Spánverjum og komist til áhrifa í mörgum fjarlægum löndum, svo sem í Austur-Asíu og á Kyrrahafi. Þar komust þeir í kynni við ýmis óvenjuleg samfélög innfæddra, sem vöktu mikla forvitni landsmanna. Bandaríkin voru skyndilega orðin hálfgert nýlenduveldi, líkt og evrópsku stórþjóðirnar og brugðust að mörgu leyti eins við þeirri stöðu.

Á fyrri heimssýningum höfðu mennskir dýragarðar verið settir upp og vakið mikla athygli. Þar höfðu fáeinar fjölskyldur, til dæmis af „frumstæðum“ afrískum þjóðflokkum, verið hafðar til sýnis á sviði eða innan girðingar þar sem undrandi góðborgarar gátu gónt á klæðalitla og húðflúraða blökkumennina.

Í St. Louis voru sýningarnar allt aðrar og stærri í sniðum. „Sýningargripirnir“ voru ekki taldir í tugum heldur mátti sjá vel á annað þúsund manns frá öllum heimshornum. Litlir ættbálkar frá örsmáum Kyrrahafseyjum, fjöldi Japana sem klæddir voru í gamaldags skrautbúninga, norðuramerískir indíánar og afrískir búskmenn – öllu ægði saman.
Til að upplifun gestanna yrði sem eðlilegust var mikil áhersla lögð á að skapa sem réttast umhverfi. Heilu afrísku þorpunum og indíánatjaldbúðunum var komið upp svo áhorfendur fengju sem raunsæjasta innsýn í daglegt líf fólksins á sýningunni. Leiktjöldin voru þó vitaskuld blekking og þátttakendurnir í raun leikarar sem löguðu sig að væntingum áhorfenda og hegðuðu sér frekar í samræmi við þær hugmyndir sem sýningargestir höfðu um atferli fjarlægra þjóða en raunveruleikann.

Stjórnendur mannfræðisýninganna í St. Louis litu svo á að starf þeirra væri hávísindalegt, í dag eru þær taldar með groddalegri birtingarmyndum þeirra rasísku erfðafræðihugmynda sem riðu húsum á Vesturlöndum á þessum árum.

Skipuleggjendurnir gáfu sér þá forsendu að hvítir Evrópubúar og afkomendur þeirra væru komnir lengst allra á þróunarbrautinni. Markmið þeirra var því einkum að bera saman hina „óæðri“ kynþætti og leggja mat á þróunarstig einstakra hópa.Mannfræðisýningar voru keimlíkar furðufyrirbærasýningum þeim sem lengi höfðu tíðkast í vestrænum fjölleikahúsum og minntu í raun á mennskan dýragarð

Blásið til keppni
Þar sem mannfræðisýningarnar og Ólympíuleikarnir voru hvort tveggja hluti af sömu heimssýningunni, kviknaði sú hugmynd að slá þrjár flugur í einu höggi: að nýta íþróttirnar til að flokka kynþættina, staðfesta yfirburði hvíta mannsins og skapa skemmtilega sýningu fyrir áhorfendur. Útkoman varð furðuleg blanda af vísindatilraun og íþróttakeppni, sem tveir menn báru öðrum fremur ábyrgð á. Þeir voru mannfræðingurinn William John McGee og íþróttaforkólfurinn James Edward Sullivan.

McGee var aðalumsjónarmaður mannfræðisýninganna í St. Louis en Sullivan var aðalskipuleggjandi Ólympíuleikanna. Sem forystumaður í íþróttahreyfingunni var hann afar íhaldssamur og stóð til að mynda gegn því að konur kepptu í íþróttum fyrir hönd Bandaríkjanna. Að hans mati höfðu bandarískir háskólar náð fullkomnun í íþróttaþjálfun og bandarískir, hvítir háskólaíþróttamenn væru því hraustustu og heilbrigðustu mannverur í heimi. Þeir McGee og Sullivan sáu sér nú leik á borði að sanna þá kenningu. 
Íþróttakeppni kynþáttanna var kynnt með pompi og prakt. „Hver er konungur villimannanna?“ – var spurt í auglýsingum. Safnað var saman fulltrúum allra þeirra kynþátta sem til sýnis voru á heimssýningunni og þeir látnir keppa innbyrðis í fjölda íþróttagreina. Útkoman varð hreinasta ringulreið.

Í fyrsta lagi var fólkið af sýningunni engir sérstakir íþróttamenn og hafði jafnvel aldrei spreytt sig á þeim greinum sem keppa átti í. Þeir McGee og Sullivan ákváðu að banna keppendunum að æfa sig, þar sem það gæti spillt niðurstöðum tilraunarinnar. Í tæknigreinum á borð við spjótkast, bogfimi og hástökk varð frammistaðan því afar döpur. Þá gleymdist að útvega túlka til að útskýra reglurnar fyrir í þátttakendum.

Ekki bætti úr skák að Sullivan leit svo á að þar sem keppnin væri óbeint hluti af Ólympíuleikunum yrðu áhugamannareglur þeirra að gilda. Enginn fékk því greitt fyrir þátttökuna, sem þýddi að fólkið á sýningunni hafði takmarkaðan áhuga á að taka þátt.
Til samanburðar við þennan herskara af byrjendum, létu þeir McGee og Sullivan hóp þjálfaðra bandarískra íþróttamanna keppa í sömu greinum. Útkoman varð vitaskuld sigur hvíta mannsins. Þótt þessi fáránlegi aðstöðumunur hefði mátt vera öllum ljós, töldu félagarnir sig hafa fengið endanlega sönnun á rasískum hugmyndum sínum og voru miklar ályktanir dregnar af tilrauninni um atgervi og stöðu einstakra kynþátta á þróunarbrautinni. Í dag ber þó vonandi öllum saman um að keppnin sé ljótur blettur á sögu nútímaólympíuleikanna, enda hefur Alþjóðaólympíunefndin reynt að má hana snyrtilega úr öllum sínum plöggum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira