Fótbolti

Aftur markavika hjá Alberti og níu mörk á árinu 2017

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Guðmundsson
Albert Guðmundsson Vísir/Getty

Albert Guðmundsson skorar nánast í hverjum leik með unglingaliði PSV Eindhoven í hollensku b-deildinni og íslenski unglingalandsliðsmaðurinn bætti við einu marki í kvöld.

Albert skoraði fyrsta mark PSV-liðsins í 3-0 sigri á Helmond Sport en hann skoraði þrennu í sigri á FC Eindhoven fyrir aðeins fjórum dögum.

Þetta er önnur svona markavika hjá stráknum eftir áramót því Albert skoraði fimm mörk í tveimur leikjum með fjögurra daga millibili í febrúar.

Albert hefur nú skorað 13 mörk í hollensku b-deildinni á þessu tímabili þar af níu þeirra á árinu 2017.

Albert er á leiðinni til móts við íslenska 21 árs landsliðið á næstunni en hann var ekki valinn í íslenska A-landsliðið að þessu sinni. Albert lék sinn fyrsta A-landsleik í Kínamótinu í janúar.
 
Fleiri fréttir

Sjá meira