Erlent

Þvertaka fyrir að hafa gert árás á mosku

Samúel Karl Ólason skrifar
Árásir voru gerðar á húsið, bæði úr orrustuþotum og með drónum.
Árásir voru gerðar á húsið, bæði úr orrustuþotum og með drónum. Vísir/AFP

Hernaðaryfirvöld Bandaríkjanna þvertaka fyrir að hafa gert árás á mosku í Sýrlandi í gær. Þess í stað hafi árás verið gerð á samkomustað al-Qaeda, við hlið moskunnar, og tugir vígamanna hafi verið felldir. Aðgerðarsinnar í Sýrlandi segja um 40 manns hafa látið lífið og þar af hafi flestir verið almennir borgarar.

Aðgerðarsinnarnir segja árásina hafa verið gerða á meðan kvöldbænir stóðu yfir og að fjöldi manns hafi verið í moskunni, sem árásin er sögð hafa verið gerð á.

Talsmaður hernaðaryfirvalda Bandaríkjanna Josh Jacques, segir þá hvorki hafa miðað á né hitt mosku. Þeir hafi gert árás á hús hinu megin við götuna. Þá segir talsmaður Pentagon að bænirnar hafi verið búnar og að fyrstu niðurstöður þeirra gefi ekki í skyn að almennir borgarar hafi fallið.

Þó segjast þeir vera tilbúnir til að rannsaka allar trúverðugar ábendingar sem berast til þeirra. Hins vegar hafi þeim ekki borist nein slík ábending, enn sem komið er.

Rannsóknarsamtökin Bellingcat segja hins vegar að myndir sem hernaðaryfirvöld birtu máli sínu til stuðnings sýni að árásin hafi í raun verið gerð á moskuna. Á vef þeirra segir að Bandaríkjunum hafi verið bent á það og þeir bíði nú svara.

Bandaríkin segja háttsetta meðlimi al-Qaeda hafa verið í samkomuhúsinu þegar árásin var gerð, samkvæmt AP fréttaveitunni. Hins vegar sé enn verið að meta áhrif árásarinnar. Árásir voru gerðar á húsið, bæði úr orrustuþotum og með drónum, en leifar Hellfire flugskeytis fundust á vettvangi árásarinnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira