Innlent

Leita að Arturi á svæðinu frá Gróttu og að Nauthólsvík

Birgir Olgeirsson skrifar
Björgunarsveitarfólk mun notast við dróna og slöngubáta við leitina í dag.
Björgunarsveitarfólk mun notast við dróna og slöngubáta við leitina í dag. Vísir/Eyþór

Leit að Arturi Jarmoszko, 26 ára karlmanni sem hefur verið saknað síðan um mánaðamótin, mun hefjast klukkan hálf tvö í dag. Miðað verður við svæðið frá Gróttu og að Nauthólsvík og mun björgunarsveitarfólk notast við dróna og slöngubáta við leitina.

Miðað er við svæðið frá Gróttu og að Nauthólsvík við leitina í dag. Loftmyndir ehf.

Arturs hefur verið saknað í sautján daga en samkvæmt nýjustu upplýsingum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sást hann síðast í eftirlitsmyndavélum ganga frá Suðurgötu í átt að Háskóla Íslands.

Þriðjudagskvöldið 28. febrúar hafði hann farið einn síns liðs í Laugarásbíó en hann fór þangað með strætó. Að bíóferðinni lokinni fór hann niður í bæ þar sem hann sást taka pening úr hraðbanka. Þaðan gekk hann út Suðurgötu klukkan eitt um nóttina.

Símamastur við Kársnes greindi síðast merki úr síma Arturs og hófu björgunarsveitarmenn og lögregla skipulagða leit á því svæði um síðustu helgi.

Artur Jarmoszko, en hans hefur verið saknað frá mánaðamótu.

Ákvörðun um leit í dag á svæðinu frá Gróttu og að Nauthólsvík er tekin út frá þeim upplýsingum að símamastur í Kársnesi greindi síðast merki úr síma hans.

Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir í samtali við Vísi að aðgerðirnar í dag verði ekki mannfrekar en engar vísbendingar eru um ferðir Arturs aðrar en þessi símagögn sem stuðst er við í dag.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var greint frá því að fari svo að leit að Arturi um helgina beri ekki árangur verður fundað um málið á mánudag. Þar kom jafnframt fram að ekki var lýst eftir Arturi fyrr en viku eftir að hann hvarf og slóðin því farin að kólna.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira