Erlent

Sami maður skaut á lögreglu norður af París í morgun

Kjartan Kjartansson skrifar
Þungvopnaðir sérsveitarmenn frönsku lögreglunnar á Orly-flugvelli í morgun.
Þungvopnaðir sérsveitarmenn frönsku lögreglunnar á Orly-flugvelli í morgun. Vísir/EPA

Maðurinn sem var skotinn til bana á Orly-flugvelli í morgun skaut á lögreglumenn og rændi bíl fyrir utan París fyrr í morgun. Á flugvellinum reyndi maðurinn að grípa byssu hermanns og var í kjölfarið skotinn til bana. Engan annan sakaði.

Orly-flugvelli hefur verið lokað eftir uppákomuna í morgun. Flugstöðvarbyggingarnar hafa verið rýmdar og flugvélum sem áttu að lenda þar hefur verið beint annað. Öllum flugferðum til og frá Orly hefur verið aflýst.

Sprengjusérfræðingar hafa leitað á flugvellinum en engar sprengjur hafa fundist, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

AP-fréttastofan hefur eftir Jean-Yves Le Drian, varnarmálaráðherra Frakklands, að maðurinn hafi ráðist á þrjá hermenn sem voru við eftirlit, þar á meðal eina konu. Maðurinn hafi rifið konuna niður og reynt að hrifsa af henni skotvopn en ekki tekist. Félagar hennar hafi skotið manninn til bana til að „verja hana“ og almenning.

Rannsókn málsins beinist að því hvort að um tilraun til hryðjuverks hafi verið að ræða. Breska ríkisútvarpið BBC segir á Twitter-síðu sinni að maðurinn hafi verið á hryðjuverkaeftirlitslista.

Innanríkisráðherrann Bruno Le Roux segir að maðurinn sem var skotinn til bana sé sá sami og skaut á lögreglumenn norður af París fyrr í morgun, rétt áður en uppákoman á Orly átti sér stað. Þar skaut maður á lögreglumenn með fuglahöglum þegar hann var stöðvaður við umferðareftirlit.

Einn lögreglumaður særðist í andliti í árásinni. Árásarmaðurinn flúði af vettvangi og rændi öðrum bíl. Lögreglan segir að sá bíll hafi síðar fundist í nágrenni Orly-flugvallar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira