Erlent

Kínverjar hvetja til stillingar yfir Norður-Kóreu

Kjartan Kjartansson skrifar
Rex Tillerson (t.v.) og Wang Yi (t.h.) takast í hendur eftir fund þeirra í Beijing í morgun.
Rex Tillerson (t.v.) og Wang Yi (t.h.) takast í hendur eftir fund þeirra í Beijing í morgun. Vísir/EPA

Málefni Norður-Kóreu standa á krossgötum en ekki má leyfa ástandinu þar að enda með átökum. Þetta segir Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, sem hvetur bandarísk stjórnvöld til stillingar eftir að bandaríski starfsbróðir hans gaf til kynna að þau gætu beitt hervaldi gegn Norður-Kóreumönnum.

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er staddur í Kína þar sem hann fundaði með Wang í dag. Sagði hann spennuna „hættulega“ mikla eftir tilraunir norður-kóreskra stjórnvalda með langdrægar eldflaugar í síðustu viku. Talið er að Norður-Kóreumenn séu að reyna að þróa kjarnavopn sem geta náð til Bandaríkjanna.

Hann opnaði á möguleikann á að Bandaríkin beittu hervaldi ef Norður-Kóreumenn ógnuðu nágrönnum sínum í suðri eða Bandaríkjunum þegar ráðherrann var í Suður-Kóreu í gær. Donald Trump forseti bætti um betur og sagði á Twitter að Norður-Kóreumenn hefðu „hegðað sér mjög illa“ og að Kínverjar hefðu gert „lítið til að hjálpa“.

Wang reyndi hins vegar að lægja öldurnar eftir fund þeirra Tillerson í dag, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

„Við vonum að allir aðilar, þar á meðal vinir okkar frá Bandaríkjunum, taki málið fyrir á yfirvegaðan og yfirgripsmikinn hátt og komist að skynsamlegri niðurstöðu,“ sagði kínverski utanríkisráðherrann.

Tillerson fundar með Xi Jinping, forseta Kína, á morgun en gert er ráð fyrir að Xi heimsæki Bandaríkin í næsta mánuði og hitti Trump forseta í fyrsta skipti.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira