Viðskipti innlent

Íhuga að hætta að framleiða kók í dós á Íslandi

Sveinn Arnarsson skrifar
Stefán Magnússon, markaðsstjóri Coca-Cola European Partners á Íslandi, sem á og rekur verksmiðju Coca-Cola á Íslandi.
Stefán Magnússon, markaðsstjóri Coca-Cola European Partners á Íslandi, sem á og rekur verksmiðju Coca-Cola á Íslandi. Vísir/GVA

Svo gæti farið að allt kók í áldósum og í gleri hér á landi verði innflutt og því ekki framleitt hér á landi úr íslensku vatni. Markaðsstjóri Coca-Cola á Íslandi segir það kost fyrir fyrirtækið að vera hluti af alþjóðlegu fyrirtæki og geta flutt inn í stað þess að framleiða vöru hér á landi.

„Við reynum á hverjum tíma að bregðast við markaðsaðstæðum. Ef við teljum það heppilegra að flytja inn vöruna þá gerum við það. Ákveðnar vörulínur getum við til að mynda ekki framleitt hér,“ segir Stefán Magnússon, markaðsstjóri Coca-Cola European Partners á Íslandi, sem á og rekur verksmiðju Coca-Cola á Íslandi.

Sala á gosi hér á landi er mest í plastflöskum og mun framleiðsla á gosi hér á landi og átöppun í plastumbúðir ekki leggjast af. Hins vegar er aðra sögu að segja um áldósir og glerflöskur.

„Við höfum verið að flytja inn Sprite og Fanta í áldósum síðustu ár. Salan í þeim vöruflokkum gefur ekki tilefni til þess að þær vörur séu framleiddar hér á landi. Gamla góða Coca-Cola er þannig vara að þó að við flytjum það inn í áldósum ættu neytendur að fá nákvæmlega sömu vöruna og áður,“ segir Stefán og bætir við:

„Við erum með mjög virkt gæðaeftirlit með okkar vörum og Coca-Cola er ferskvara.“
Fleiri fréttir

Sjá meira