Sport

Hélt að kerfið hefði farið í gang út af prumpulykt | Gunnar fór á kostum á blaðamannafundi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gunnar var rólegur fyrir bardagann í gær.
Gunnar var rólegur fyrir bardagann í gær. Vísir/Getty

Gunnar Nelson sýndi allar sína bestu hliðar á blaðamannafundinum eftir bardagakvöld UFC í London í gær. Gunnar hafði í gær betur gegn Alan Jouban eftir frábæra frammistöðu en hann vann á hengingu í annarri lotu.Hann svaraði spurningum blaðmanna um bardagann í gær, tapið gegn Rick Story á sínum tíma og hvort það hafi breytt ferlinum hans, hanskana sem hann notaði í bardaganum og margt annað.

Meðal þess sem hann var spurður um var hvernig hann upplifði þegar brunaviðvörunarkerfi hótelsins sem hann var á fór í gang kvöldið fyrir bardagann.

Sjá einnig: Gunnar þurfti að standa úti í kuldanum vegna brunaviðvörunnar á hótelinu

„Ég öskraði og var dauðhræddur,“ sagði hann í augljósri kaldhæðni en fátt í þessum heimi virðist geta komið Gunnari úr jafnvægi eins og þekkt er.

„Við vorum einmitt að loka augunum og fara að sofa þegar kerfið fór af stað. Við vissum ekki hvort þetta væri bara í herberginu okkar eða hótelinu öllu.“

Gunnar hélt svo áfram að slá á létta strengi. „Reyndar leysti einn herbergisfélaga minna vind og lyktin var virkilega slæm. Við héldum að það væri út af lyktinni því hún var hræðileg,“ sagði hann og uppskar hlátur í salnum.

Hann segir að þeir hafi reynt að halda kyrru fyrir í herberginu en hljóðið í viðvörunarkerfinu hafi verið það pirrandi að þeir létu segjast.

„Ég leit út og sá tvo herramenn sem virtust jafn gáttaðir og ég sjálfur. Svo fundum við reyklykt og ákváðum að það væri tímabært að fara út.“

Það má horfa á blaðamannafundinn á Youtube-rás UFC en Gunnar byrjar að tala eftir um stundarfjórðung.Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira